Erlent

Þurfa að dvelja niðurgrafnir til áramóta - deilt um upplýsingaskyldu

Breki Logason skrifar

Námuverkamennirnir þrjátíu og þrír frá Chile sem setið hafa fastir í námu síðustu átján daga, sungu þjóðsönginn og þökkuðu björgunarfólki í gær. Það sem þeir vita líklega ekki er að þeir þurfa að dvelja í námunni fram að áramótum.

Mennirnir festust inni í námunni eftir að hún hrundi fyrir tæplega þremur vikum en í gær náðist samband við mennina sem allir eru á lífi. 15 cm þykk hola er á milli mannanna, sem eru á 670 metra dýpi, og yfirborðsins og hefur súrefni meðal annars verið komið niður til þeirra ásamt helstu vistum.

Þeir hafa síðustu átján daga nærst á mjölk, túnfiski og kexkökum en þeir voru orðnir nokkuð hungraðir þegar samband náðist við þá. Þeir höfðu þó vatn, sem talin er vera meginástæða þess að þeir eru enn á lífi.

Til þess að ná mönnunum upp þarf að grafa holu í gegnum bergið, en það gengur hægt og komast menn einungis 20 metra á dag og því mun björgunin taka um fjóra mánuði. Yfirvöld segjast nú vinna með sérfræðingum að því að finna fljótlegri aðferð til þess að ná þeim upp.

Mennirnir hafa allir komið skilaboðum til fjölskyldna sinna.

Mikill hiti er niðri í námunni en mennirnir hafa allir töluverða reynslu af því að vinna neðanjarðar.

Sérfræðingar deila nú um hvort upplýsa eigi mennina um stöðu mála en mennirnir vita ekki að líklega þurfa þeir að dvelja í námunni fram að áramótum. Verði þeir upplýstir um stöðu mála, er það talið geta haft alvarlegar afleiðingar á geðheilsu mannanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×