Erlent

Fellibylurinn Alex tekur land -olíuhreinsun hætt

Óli Tynes skrifar
Gervihnattamynd af Alex þar sem hann tekur land.
Gervihnattamynd af Alex þar sem hann tekur land.

Mikill vindhraði er í Alex um og yfir eitthundrað kílómetrar á klukkustund.

Hann hefur nú tekið land á mörkum Texas og Mexíkó og veldur miklum usla. Ekki aðeins vegna vindhraða heldur einnig vegna úrkomu.

Hann hefur meðal annars valdið ólgusjó á Mexíkóflóa þannig að ekki var talið annað fært en senda olíuhreinsunarskip og báta í land.

Búist er við að þetta ástand geti varað í einhverja daga og á meðan er engin leið að hemja olíuna.

Það þykir þó huggun harmi gegn að Alex fór ekki yfir versta mengunarsvæðið á leið sinni, því í upphafi var óttast að hann gæti sópað gríðarlegu olíumagni á land.

Sérstaklega höfðu menn áhyggjur af þessu á úteyjum undan ströndinni sem hefðu nánast verið kaffærðar í olíu.

Barack Obama forseti vill þó vera við öllu búinn og hefur lýst yfir neyðarástandi í suðurhluta Texas.

Fellibyljir eru enda ekki meira útreiknanlegir en svo að þeir geta hæglega breytt um stefnu öllum að óvörum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×