Innlent

Telja að fjórða hvert hross geti smitast aftur

Hægt er að meðhöndla sýkinguna með pensilíni, og sjálfsagt að gera það séu hross enn að kljást við sýkinguna.
Hægt er að meðhöndla sýkinguna með pensilíni, og sjálfsagt að gera það séu hross enn að kljást við sýkinguna.
Einkenni sýkingarinnar sem herjað hefur á íslensk hross undanfarna mánuði má að öllum líkindum rekja til streptókokkasýkingar í hálsi hrossanna, samkvæmt niðurstöðum úr sýnum úr veikum hrossum á Tilraunastöðinni á Keldum.

Fram kemur á vef Matvælastofnunar að enn sé unnið að rannsóknum á uppruna sýkingarinnar, en reikna verði með því að fjórða hvert hross sem fengið hafi veikina eigi á hættu að veikjast aftur. Ræktun á streptókokkum úr sýktum hrossum bendir til þess að sýkingin búi fyrst og fremst um sig í slímhúð í hálsi og breiðist síðar út í nefhol og barka.

Faraldurinn náði hámarki í húshrossum um mánaðamótin apríl/maí, samkvæmt könnun sem gerð var meðal eigenda hrossa. Algengast var að hross hóstuðu í þrjár vikur eða minna, og sjaldgæft var að þau hefðu einkenni lengur en í sex vikur. Meirihluti hrossanna er nú kominn yfir veikina, að mati þeirra sem svöruðu könnuninni.

Matvælastofnun mælir með því að smituðum hrossum sé haldið frá heilbrigðum hrossum. Þá sé nauðsynlegt að þrífa vel og sótthreinsa hesthús. Talið er að draga megi verulega úr hættu á nýjum faraldri í haust fylgi hestaeigendur þessum leiðbeiningum. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×