Erlent

Það vantar snjó í Vancouver

Óli Tynes skrifar
Trukkar keyra snjó í skíðabrekkurnar í Vancouver.
Trukkar keyra snjó í skíðabrekkurnar í Vancouver. Mynd/AP

Það eru allir að gera sig klára fyrir Vetrarólympíuleikana í Vancouver. Nema Vetur konungur. Í Vancouver er farið að tala um brúnu leikanna vegna leðjunnar á Cypress fjalli.

Í District of Columbía í Bandaríkjunum er Washingtonborg á kafi í snjó. Í bresku Kolumbíu í Kanada er neyðarástand vegna snjóleysis.

Risastórir trukkar og jafnvel þyrlur hafa verið notaðar til þess að flytja snjó á keppnisbrautirnar.

Snjóleysið hefur meðal annars valdið því að æfingatími keppenda hefur verið skorinn niður eða jafnvel alveg sleginn af.

Í Vancouver borg sjálfri eru krókusar farnir að blómstra og brumknappar komnir á eplatrén vegna hinna óvenjulegu hlýinda.

Varaformaður íþróttaráðs Vancouver segir að spáin sé jákvæð þessa vikuna. Vonandi kólni loks og snjór falli í brúnar brekkurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×