Erlent

Gengst við morðum á söguslóðum

Leitinni lokið Bandarískir lögreglumenn í Virginíu kveðjast að verki loknu.
fréttablaðið/AP
Leitinni lokið Bandarískir lögreglumenn í Virginíu kveðjast að verki loknu. fréttablaðið/AP

Snemma í gærmorgun kom Christopher Speight, 39 ára maður, á morðvettvang í Virginíu og gaf sig fram við lögreglu. Mannsins hafði verið leitað víðs vegar í nágrenninu um nóttina.

Átta manns lágu í valnum í og við íbúðarhús í dreifbýli í Virginíu þegar lögregla kom á vettvang snemma nætur. Vegfarandi hafði tilkynnt lögreglu um helsærðan mann sem lá við þröngan sveitaveg.

Lögreglan umkringdi bæði húsið og skóglendi í kring og þyrlur sveimuðu yfir meðan mannsins var leitað. Hann skaut á eina þyrluna og kom skotið í eldsneytistank svo þyrlan þurfti að lenda.

Þegar Speight gaf sig fram var hann klæddur í skothelt vesti, en óvopnaður. Hann bjó í nágrenninu og þekkti til fólksins sem hann myrti. Hann var fluttur burt til yfirheyrslu.

Húsið er skammt frá Appomattox, stað sem er frægur í sögu Bandaríkjanna vegna þess að þar gafst Robert E. Lee, herforingi Suðurríkjanna, upp fyrir Ulysses S. Grant, herforingja Norðurríkjanna, árið 1865, og lauk þar með þrælastríðinu.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×