Erlent

Hafa lært á lífsklukkuna

Konur geta í framtíðinni stillt saman áætlanir sínar um barneignir, nám og vinnu af töluverðri nákvæmni.
nordicphotos/getty
Konur geta í framtíðinni stillt saman áætlanir sínar um barneignir, nám og vinnu af töluverðri nákvæmni. nordicphotos/getty

Vísindamenn telja að einfalt blóðpróf geti í framtíðinni spáð fyrir um hvenær breytingaskeið kvenna hefst. Telja þeir að konur geti fengið þessar upplýsingar við ungan aldur og því auðveldað þeim að skipuleggja líf sitt á nýjan hátt með tilliti til barneigna.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem verður kynnt á læknaráðstefnu í Róm í dag. Íranskir sérfræðingar halda þar fram að frumniðurstöður þeirra bendi eindregið í þessa átt. Prófið spáir ekki fyrir um hvenær konur verða ófrjóar, sem oftast er um áratug áður en breytingaskeið hefst, heldur er byggt á vitneskju um upphaf breytingaaldurs. Sérstaklega er þetta talið gagnlegt fyrir þann hóp kvenna þar sem breytingaskeiðið hefst snemma; eða á fertugsaldri.

Íranarnir rannsökuðu blóðsýni úr 266 konum frá tvítugu til fertugs. Þeir mældu hormónamagn þeirra sem segir til um hversu mörg egg eru eftir í líkama þeirra og var konunum fylgt eftir í sex ár. Af 63 konum í þeim hópi skeikaði aldrei meira en um fjóra mánuði á milli spár vísindamanna og upphafs tíðahvarfa þeirra.

Efasemdir hafa vissulega komið upp um áreiðanleika blóðprófs í þessum tilgangi. Telja læknar og sérfræðingar í frjósemi kvenna líklegra að nokkur próf yfir ævina þurfi til. Eins að rannsaka þurfi þúsundir kvenna áður en niðurstaðan verður staðfest. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×