Erlent

Gefa sér eitt ár til að semja

Flugvöllurinn á Gasa. Meðal þess sem Palestínumenn vonast til þess að fá út úr viðræðum er að alþjóðaflugvöllur þeirra verði nothæfur á ný.fréttablaðið/AP
Flugvöllurinn á Gasa. Meðal þess sem Palestínumenn vonast til þess að fá út úr viðræðum er að alþjóðaflugvöllur þeirra verði nothæfur á ný.fréttablaðið/AP

Ísraelsk og palestínsk stjórnvöld hafa fallist á að hefja friðarviðræður á ný í byrjun september. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skýrði frá þessu í gær.

Kvartettinn svonefndi, sem er samstarfsvettvangur Evrópusambandsins, Sameinuðu þjóðanna, Rússlands og Bandaríkjanna í málefnum Mið-Austurlanda, segir í yfirlýsingu í gær að stefnt sé að því að ljúka viðræðum á einu ári.

Leiðtogar Ísraels, Palestínu, Egyptalands og Jórdaníu ætla að hitta Barack Obama Bandaríkjaforseta í Washington 1. september og viðræður hefjast daginn eftir.

Óbeinar viðræður Ísraela og Palestínumanna hafa staðið yfir undanfarnar vikur með milligöngu Bandaríkjamanna. Himinn og haf er enn á milli þeirra, en samt er stefnt að því að ljúka viðræðunum með samkomulagi sem fæli í sér að Palestínumenn fengju sjálfstætt ríki en Ísraelar gætu búið við frið.

George Mitchell, erindreki Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin muni leggja fram tillögur sem vonast er til að hjálpi til við að brúa bilið.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×