Viðskipti innlent

Mikilvægt að standast ágang sérhagsmunahópa

Tómas Már og jóhanna Þrátt fyrir mismunandi afstöðu til skattastefnu stjórnvalda voru forstjóri Alcoa á Íslandi og forsætisráðherra sammála um mikilvægi þess að snúa bökum saman til að komast í gegnum kreppuna. Fréttablaðið/GVA
Tómas Már og jóhanna Þrátt fyrir mismunandi afstöðu til skattastefnu stjórnvalda voru forstjóri Alcoa á Íslandi og forsætisráðherra sammála um mikilvægi þess að snúa bökum saman til að komast í gegnum kreppuna. Fréttablaðið/GVA

Skattastefna stjórnvalda og útþensla hins opinbera var harðlega gagnrýnd á Viðskiptaþingi í gær. Forsætisráðherra segir ríkið verða að taka á sig stærri hlut til að koma efnahagslífinu á réttan kjöl.

Íslenska skattkerfinu hefur verið umturnað á skömmum tíma, flækjustig og kostnaður aukist og dregið hefur úr hvata til verðmætasköpunar. Þá hefur umhverfi til fjárfestinga orðið lakara og líkur á skattaundanskotum aukist. Þetta er á meðal þess sem fram kom í ræðu Tómasar Más Sigurðssonar, forstjóra Alcoa á Íslandi, á þéttsetnu Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í gær. Tómas er jafnframt formaður Viðskiptaráðs.

„Það verður því ekki betur séð en að þessi skattastefna stjórnvalda muni skila þveröfugri niðurstöðu og hrekja burt fjármagn og verðmætt vinnuafl. Ef endanlegt markmið stjórnvalda er að verja lífskjör í landinu verða þau að sýna meiri framsýni í skattastefnu sinni,“ sagði hann og vísaði í skoðanakönnun Viðskiptaráðs meðal atvinnurekenda. Í niðurstöðum hennar kemur fram að um helmingur atvinnurekenda telji líkur á að þeir muni fækka starfsfólki á næstu mánuðum. Þá gagnrýndi hann jafnframt útþenslu hins opinbera á síðustu árum, ríkisstarfsmönnum hafi fjölgað um þrjátíu prósent á síðastliðnum árum og útgjöld aukist um helming að raungildi.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, sagði ekki undan því vikið að ríkið taki á sig stærri hlut til að koma efnahagslífinu aftur á réttan kjöl. Þetta þurfi að gera bæði á ódýrari og einfaldari hátt en áður. Hún sagði hins vegar stærstu áskorun stjórnmálamanna nú þá að standast ágang þrýstihópa og horfa til hagsmuna heildarinnar. Óskaði hún eftir stuðningi Viðskiptaráðs til að standast áganginn.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×