Innlent

Vill virkja fyrir rafmagnsbílaverksmiðju

Fimm virkjanir í þremur stórfljótum Suðausturlands eru í undirbúningi. Ráðamenn Skaftárhrepps taka vel í áformin og vonast til að orkuverin leiði til þess að iðnaður festi rætur í sveitinni. Sveitarstjórinn vill helst rafmagnsbílaverksmiðju.

Við höfum á síðustu dögum greint frá virkjanaáformum landeigenda, bæði við Skaftá og Hverfisfljót. Í raun eru margar slíkar óskir á borðum hreppsnefndar Skaftárhrepps; stærstar eru Hólmsárvirkjun við Atley, 70 megavött, Skaftárvirkjun ofan Skaftárdals, 125 megavött, og svo virkjun Hverfisfljóts, upp á 60 megavött. Þá eru tvær smærri virkjanir í Skaftá í undirbúningi, við Skál og Dalbæ, 4 megavött hvor.

Oddvitinn, Jóna S. Sigurbjartsdóttir, skoðar þetta með opnum huga. Þau séu ekkert að setja hornin í slík áform þótt þau sjái ekki fyrir sér að sveitarfélagið verði allt eitt virkjanasvæði. Til þess sé landið allt of fallegt. Hún kveðst þó ekki alfarið á móti virkjunum en tekur fram að hún vilji ekki sjá álver í sveitinni, enda standi það ekki til.

Sveitarstjórinn, Bjarni Daníelsson, býst við beðið verði með ákvarðanir þar til rammaáætlun stjórnvalda um orkunýtingu liggur fyrir en henni er ætlað að leggja línur um hvaða svæði verði friðuð. Sveitarfélagið þarf að leita málamiðlana, það vill bæði fá iðnað og efla ferðaþjónustu.

Bjarni telur sennilegt að samkomulag verði um umtalsverða stækkun á Vatnajökulsþjóðgarði og að Langisjór og sennilega Eldgjáin öll fari inn í hann. Sér þyki einnig sennilegt að eitthvað verði virkjað á þessu svæði.

Hugmyndir að veita Skaftá yfir á Þjórsár- og Tungnaársvæðið eru þó út af borðinu hjá sveitarfélaginu sem hefur skipulagsvaldið. Jóna segir að það verði aldrei að Skaftá verði tekin vesturfyrir.

Rík krafa er um að nýta orkuna heima í héraði. Bjarni segir að sveitarfélagið hafi kveðið nokkuð fast að orði með þetta en það sé kannski ekki alveg hægt að skilyrða það.

Þau viljað iðnað en þegar spurt er hvernig iðnað, segir sveitarstjórinn margar hugmyndir nefndar og fer á flug. Hann spyr hvort þetta sé ekki upplagt svæði fyrir rafmagnsbílaverksmiðju eða rafhlöðuverksmiðju fyrir rafmagnsbíla. Það komi alltaf hugmyndir og ekki líði nema vika að ekki komi ný brilljant hugmynd.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×