Skoðun

Styrkur fræðisviða og mikilvægi hugvísinda

Eiríkur Smári Sigurðarson skrifar
Ísland er ekki eina landið þar sem þrengir að háskólum og rannsóknastarfsemi. Í Bretlandi og Bandaríkjunum berast fréttir af því að háskólar leggi niður heilu námsbrautirnar í hugvísindum, eins og heimspeki eða tungumál, til að mæta samdrætti. Viðbrögð af þessu tagi bera vott um mjög þrönga sýn á hvað er mikilvægt í háskólastarfi og hverju samfélög þurfa á að halda til að dafna, hvort sem það er efnahagslega eða menningarlega, og við berum vonandi gæfu til þess hér á landi að falla ekki í þessa gryfju. Smæðin gerir okkur líka viðkvæmari. Hér á landi er bara einn skóli sem býður upp á fjölbreytt og heildstætt háskólanám í hugvísindum. Ef hann fer að loka námsgreinum í hugvísindum þá skilur það eftir mjög stórt skarð í íslensku háskólasamfélagi.

Sitt sýnist hverjum um gæði háskólastarfs og óháðu ytra eftirliti með gæðum kennslu og rannsókna hefur verið ábótavant á Íslandi. Um þetta eru flestir sammála og því ber að fagna stofnun alþjóðlegs gæðaráðs sem fær þessa ábyrgð í sínar hendur (sjá grein Katrínar Jakobsdóttur í Fréttablaðinu 21. október). Eiríkur Steingrímsson og Magnús Karl Magnússon benda á að í gæðaráðinu sé enginn með reynslu af raunvísindum eða heilbrigðis- og lífvísindum og bæta síðan við að þetta séu þær greinar vísindanna sem sterkastar eru á Íslandi án þess að færa fyrir þessu rök (sjá Fréttablaðið 13. október). Nú er engin ástæða til að efast um að það séu mjög öflugir vísindamenn í þessum greinum á Íslandi og að þeir séu mjög framarlega í alþjóðlegu samhengi. Hins vegar geta vísindamenn í mun fleiri greinum líka gert tilkall til þess að standa í fremstu röð á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars í lykilfögum hugvísinda eins og íslenskum fræðum eða norrænum miðaldabókmenntum.

Vandinn við fullyrðingar af þessu tagi er að það er mjög erfitt að bera saman styrk mismunandi fræðasviða, t.d. hugvísinda og lífvísinda, þar sem rannsóknaaðferðir og birtingahefðir geta verið mjög ólíkar. Í skýrslu sem kom út hjá Rannís fyrr á þessu ári og byggir á norrænni úttekt á birtingum vísindamanna, Ritrýndar birtingar og áhrif þeirra, er gerð tilraun til að meta styrkleika vísinda á Íslandi með greiningu á birtingum og tilvísunum í birtingar. Meðal helstu niðurstaðna er að klínískar læknisfræðirannsóknir séu stærsta rannsóknasviðið á Íslandi og að styrkur Íslands sé líka mikill á sviði líftækni og jarðvísinda (bls. 5, sjá á heimasíðu Rannís www.rannis.is). Formaður vísindanefndar vitnar í þessa skýrslu í grein sinni í Fréttablaðinu 30. október sl. Gallinn er bara sá að greiningin byggist á gögnum sem ná ekki nema að mjög litlu leyti yfir hugvísindi og félagsvísindi (þ.e. Thomson ISI tímaritagrunninum), eins og raunar er tekið skýrt fram í skýrslunni (bls. 4). Af þessum sökum er ekki hægt að nota þessa greiningu til að bera saman styrkleika mismunandi fræðasviða, t.d. hugvísinda og lífvísinda, þó hún dugi kannski til að meta styrk sumra fræðasviða á alþjóðlegum vettvangi.

Í annarri útgáfu frá Rannís, Rannsóknir og þróunarstarf á Íslandi 2009, eru áhrif greinaskrifa vísindamanna skoðuð (byggt á sama gagnagrunni). Þar koma hugvísindin mun betur út en bæði raunvísindi og verk- og tæknivísindi en standa þó ekki eins sterkt og lækna- og heilbrigðisvísindi. Innan hugvísinda eru greinar sem standa alþjóðlega mjög sterkt í rannsóknum ásamt öðrum sem eru veikari. Sama á við um önnur fræðasvið. Nú þegar þrengir að verðum við að bera gæfu til að kunna að meta það sem vel er gert á öllum sviðum og mála ekki með of stórum penslum.



Skoðun

Sjá meira


×