Erlent

Kennedy veldið á enda runnið

Patrick og Edwardk Kennedy.
Patrick og Edwardk Kennedy. MYND/AP

Ein frægasta og valdamesta fjölskylda Bandaríkjanna er ekki svipur hjá sjón frá því sem var en margir frægustu stjórnmálamenn landsins hafa verið af því slekkti og þar er frægastur John F. Kennedy fyrrverandi forseti sem myrtur var árið 1963. Patrick Kennedy, sonur Edwards Kennedys sem lést á dögunum, mun tilkynna á sunnudag að hann ætli sér ekki að sækjast eftir endurkjöri í fulltrúadeild Bandaríkjaþings þar sem hann hefur átt sæti.

Þegar hann lýkur þingsetu sinni mun enginn af ætt Kennedya sitja í pólitísku embætti og er það í fyrsta skipti sem slíkt gerist frá árinu 1947. Patrick hefur glímt við áfengis og fíkniefnaneyslu eins og mörg ættmenni hans en ástæða brotthvarfsins er rakin til dauða föður hans. Þeir munu hafa verið afar nánir samherjar í stjórnmálunum og tók Patrick dauða hans afar illa.

Ákvörðun hans er túlkuð sem áfall fyrir Barack Obama en fyrir nokkrum vikum misstu demókratar sætið í Öldungadeildinni sem Edward Kennedy hafði átt frá árinu 1962. Gera má ráð fyrir að repúblikanar sjái sér nú leik á borði og reyni að ná sæti Patricks í kosningunum sem fram fara í nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×