Viðskipti innlent

Lánabók Kaupþings orðin 451 milljarða virði

Lánabók Kaupþings var orðin 451 milljarðar kr. að raunvirði (fair value) um síðustu áramót. Þetta kemur fram í skýrslu skilanefndar Kaupþings til kröfuhafa bankans sem birt er reglulega á vefsíðu nefndarinnar.

Fram kemur að lánabókin nái yfir 113 hópa viðskiptavina bankans. Ennfremur að nafnvirði lánanna um síðustu áramót hafi numið 1.372 milljörðum kr.

Hlutfallið milli raunvirðis lána viðskiptavina bankans og nafnverðs þeirra er í samræmi við verðið á skuldabréfum Kaupþings sem gengið hafa kaupum og sölum frá falli hans. Samkvæmt vefsíðunni Keldan.is er verð þeirra nú 24,5% af nafnvirði og hefur verið svo um lengri tíma.

Fram kemur í skýrslunni að af fyrrgreindum lánum voru 76% af Evrópulánunum á athugunarlista skilanefndarinnar í lok árs 2008. Hlutfall norrænu lánana á þessum lista nam 41%. Með athugunarlista er m.a. átt við lán sem ekki er borgað af, lán hjá viðskiptamönnum í atvinnugeirum sem fóru sérstaklega illa út úr kreppunni eða lánaskilmálar hafi ítrekað verið brotnir.

Mikið af þessum lánum voru endurskipulögð á árinu 2009 og um síðustu áramót voru hlutföllin þannig að 24% af Evrópulánunum voru enn á athugunarlistanum og 11% af norrænu lánunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×