Ragnar Fjalar, Sigurður Þórir, Arnljótur, Mundi og Morri sýna „overkill-teikningar“ sem þeir hafa unnið í vetur á sýningunni A4 TR1BUT3 5H0W, sem opnuð verður í Kaffistofu, Hverfisgötu 42 í dag.
„Allar teikningarnar sem sýndar eru eiga það sameiginlegt að vera unnar á A4-blöð. Notast er við túss og teip og ofgnótt ímyndunarafls. Myndirnar eru unnar af hóp félaga sem eru ófeimnir í samvinnu sinni,“ segir í tilkynningu frá listamönnunum.
Allir eru velkomnir á opnunina sem hefst klukkan 19 í kvöld. Gestaplötusnúðar sjá um að hita mannskapinn upp í páskahretinu.

