Handbolti

Þjálfari Minden segir Gylfa spila eins og hann væri sjö árum yngri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Gylfason.
Gylfi Gylfason. Mynd/Heimasíða WHV
Gylfi Gylfason hefur framlengt samning sinn við GWD Minden í Þýskalandi um eitt ár en liðið er fallið úr þýsku úrvalsdeildinni og spilar í b-deildinni næsta vetur. Gylfi hefur staðið sig vel með liðinu í vetur og er með 93 mörk í 29 leikjum eða 3,2 að meðaltali í leik.

Ulf Schefvert, þjálfari Minden, hrósaði íslenska hornamanninum á heimasíðu félagsins. „Gylfi hefur spilað vel að undanförnu. Hann er góður liðsmaður sem talar ekki mikið en lætur verkin tala inn á vellinum," sagði Schefvert á heimasíðu félagsins.

Minden treystir á reynslu Gylfa til að hjálpa liðinu að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni á nýjan leik. „Hann er kannski skráður 33 ára gamall á fæðingavottorðinu sínu en hann er í eins góðu formi og ef að hann væri bara 26 ára gamall," sagði Schefvert.

Gylfi kom til Minden árið 2008 en spilaði áður með Wilhelmshaven og HSG Düsseldorf. Hann hefur alls skorað 744 mörk í 264 leikjum í þýsku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×