Innlent

Manns saknað eftir að bát hvolfdi

Manns er saknað eftir að bátur strandaði í Fáskrúðsfirði í morgun. Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi voru kallaðar út og Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar, sótti kafara á Höfn í Hornafirði. Leit stendur yfir á svæðinu.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 08:40 í morgun tilkynning um rautt ljós sem sást í námunda við Skrúð í Fáskrúðsfirði.

Í kjölfarið voru björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi kallaðar út og eru þær á staðnum með björgunarskip, báta og kafara. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og haft samband við nærstadda báta á svæðinu og þeir beðnir að svipast um eftir bát sem vitað var að væri við Skrúð.

Neyðarblyss sást klukkan 09:30 frá Vattanesi og kom fiskibátur að gúmmíbjörgunarbát klukkan 09:35. Einn maður var um borð í bátnum og var hann heill á húfi en hafði hann misst af félaga sínum en tveir menn voru um borð í bátnum sem er saknað.

Kallaðir voru út kafarar á Austurlandi og einnig sótti Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar kafara á Höfn í Hornafirði, klukkan 11:10.

Leit stendur yfir á svæðinu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×