Innlent

Rúm 6% borgarbúa kusu

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, opnaði fyrir kosninguna 2. desember. Hún er ánægð með þátttöku borgarbúa í verkefninu.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, opnaði fyrir kosninguna 2. desember. Hún er ánægð með þátttöku borgarbúa í verkefninu. Mynd/Valgarður Gíslason
Netkosningu um forgangsröðun fjármuna til nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í hverfum Reykjavíkurborgar er lokið. Alls kusu 5876 Reykvíkingar í netkosningunni eða 6,2% kosningabærra sem voru allir Reykvíkingar á 16. aldursári og eldri, að fram kemur í tilkynningu. Borgarstjóri er ánægður með þátttökuna.

Alls verður 100 milljónum króna varið til þeirra verkefna sem kosið var um og  fjármunum skipt á milli hverfa í samræmi við fjölda íbúa. Verkefnin tóku mið af ábendingum íbúa, hverfaráða og íbúasamtaka, en flestar óskir og ábendingar sem Reykjavíkurborg berast snerta smærri nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni í hverfum.

„Það er mjög ánægjulegt að svo margir borgarbúar hafi sýnt áhuga á að taka þátt í þessu fyrsta tilraunaverkefni okkar af þessum toga þ.e. að kjósa á vefnum um forgangsröðun fjármuna,“ er haft eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, í tilkynningunni.

Hanna Birna segir að það sé mikilvægt að virkja borgarbúa til þátttöku. Þannig fái borgaryfirvöld nauðsynleg skilaboð um vilja þeirra sem búa í hverfum borgarinnar.

„Markmið kosningarinnar  var annars vegar að glæða áhuga íbúanna á málefnum hverfanna og hins vegar að gera tilraun til að gefa þeim tækifæri til áhrifa. Bæði markmiðin tókust nokkuð vel. Hvað varðar fyrra markmiðið má segja að meiri fjöldi íbúa hafi tekið þátt í að taka bindandi ákvarðanir um forgangsröðun verkefna í sínum hverfum en nokkur dæmi eru til á Íslandi eða hátt í 6 þúsund manns,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, sem veitti Reykjavíkurborg ráðgjöf vegna verkefnisins.

Kosið var um forgangsröðun framkvæmda og voru verkefni í flokknum Umhverfi og útivist sett efst í forgangsröð af íbúum í átta hverfum af tíu. Aðrir verkefnaflokkar sem valið stóð um voru Leikur og afþreying og Samgöngur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×