Viðskipti innlent

Reiknar með óbreyttum stýrivöxtum í ágúst

Greining Íslandsbanka reiknar með að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda vöxtum sínum óbreyttum í 12% á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans sem verður þann 13. ágúst næstkomandi.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að hið sama eigi við um innlánsvexti bankans sem nú standa í 9,5%. Þrátt fyrir að nokkuð hafi miðað áfram í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrisjóðsins og stjórnvalda frá síðustu vaxtaákvörðun í byrjun júlí sem ætti að öllu jöfnu að gefa tilefni til slökunar er útlit fyrir að þróun á gengi krónunnar og verðbólgu verði enn óviðunandi að mati peningastefnunefndarinnar þegar hún tekur ákvörðun í ágúst.

Í fundargerð peningastefnunefndar frá síðustu vaxtaákvörðun kemur það skýrt fram að styrking krónu frá því gildi sem hún stóð í við síðustu vaxtaákvörðun væri forsenda vaxtalækkunar. Gengi krónunnar hefur nánast staðið í stað frá í byrjun júlí og ólíklegt er að það muni hækka fram að vaxtaákvörðunardegi bankans.

Þessu til viðbótar er ljóst að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mælir ekki með frekari vaxtalækkunum en reynslan hefur sýnt að ráðgjöf sjóðsins nýtur töluverðs hljómgrunns innan peningastefnunefndar. Loks má nefna að fram hefur komið að peningastefnunefndin vill að vextir verði enn háir þegar farið verði í að afnema gjaldeyrishöftin en fyrirhugað er að hefja afnám þeirra seint á þessu ári.

Greiningin reiknar með því að stýrivextir Seðlabankans haldist óbreyttir fram á 2. ársfjórðung næsta árs. Fyrirhugað afnám gjaldeyrishafta ásamt væntanlegri þróun krónunnar mun að mati greiningarinnar kalla á óbreytta stýrivexti fram að þeim tíma. Ekki er hægt að útiloka að peningastefnunefnd bankans ákveði að hækka vexti bankans á þessum tíma.

Að því tilskyldu að framvindan í áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda verði líkt og að er stefnt ættu að skapast forsendur fyrir hækkun krónunnar á næsta ári og að samhliða þeirri þróun verði slakað á aðhaldinu í peningamálum.

Spáir greiningin því að stýrivextir bankans verði komnir í 7,5% í lok næsta árs eða 4,5 prósentustigum lægri en þeir eru nú. Um mitt ár 2011 verða stýrivextir Seðlabankans komnir niður í 6% að okkar mati.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×