Viðskipti innlent

Neytendasamtökin fordæma Nýja Kaupþing opinberlega

„Þar sem Neytendasamtökin eru nú orðin úrkula vonar um að þeim berist svar sjá þau sig knúin til að fordæma verklag bankans opinberlega."

Þetta segir í frétt á vefsíðu Neytendasamtakanna. Ástæða þessara orða er sú að hingað til hefur Nýja Kaupþing í engu svarað ítrekuðum fyrirspurnum frá samtökunum um lánaskilmála sína á gengistryggðum lánum.

Á vefsíðunni segir að samkvæmt niðurstöðu Neytendastofu og síðar áfrýjunarnefndar neytendamála braut Kaupþing lög um neytendalán með því að tiltaka ekki í lánaskilmálum með hvaða hætti vextir á gengistryggðum lánum væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir gætu breyst.

Þar sem málið var tæpt ár í vinnslu Neytendastofu og áfrýjunarnefndar töldu Neytendasamtökin fyrirséð að bankinn hefði undirbúið einhver andsvör, að einhver yfirlýsing myndi birtast frá bankanum, um það hvernig hann hyggðist bæta lántakendum það tjón sem lögbrotin hefðu valdið.

Neytendasamtökin sendu Nýja Kaupþingi erindi hinn 1. október sl. fyrir hönd lántakenda og óskuðu eftir upplýsingum um það með hvaða hætti bankinn hygðist bæta lántakendum tjónið. Erindið var ítrekað 16. október en engin viðbrögð hafa borist frá bankanum.

Fyrra erindið var sent á yfirmann lögfræðisviðs, yfirmann viðskiptabankasviðs og bankastjóra. Seinna erindið var sent beint á persónulegt netfang bankastjóra.

„Enginn þessara aðila hefur séð tilefni til að svara. Neytendasamtökunum þykir ótrúlegt að banki í eigu ríkisins, banki sem gefur sig út fyrir að vera annt um hag viðskiptavina sinna, sjái hvorki tilefni til að svara erindum samtakanna, né senda frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Sérstaklega í ljósi þess að stjórnvöld hafa komist að þeirri niðurstöðu að bankinn hafi gerst sekur um lögbrot," segja Neytendasamtökin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×