Viðskipti innlent

Stefna Glitnissjóðum vegna Sjóðs 9

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hópur hlutdeildarskírteinishafa í peningamarkaðssjóðnum Sjóður 9 sem starfræktur var á vegum Glitnis hyggst stefna sjóðnum. „Útgreiðsluhlutfallið úr Sjóði 9 var 85,12% miðað við síðasta skráða gengi sjóðsins þann 6. október í fyrra," segir Einar Hugi Bjarnason, lögmaður hjá Ergó lögmönnum, sem undirbýr málsóknina.

Einar Hugi segir að krafist verði viðurkenningar á skaðabótaskyldu Íslandssjóða hf., sem áður hétu Glitnissjóðir hf., vegna mismunarins og þess tjóns sem sjóðsfélagar urðu fyrir. „Þessu til viðbótar er það staðreynd að Glitnir keypti í lok september, með stuðningi þáverandi ríkisstjórnar, skuldabréf Stoða hf. eða FL Group út úr sjóðnum fyrir tæpa 12 milljarða króna. Sama dag var framkvæmd varúðarniðurfærsla í sjóðnum upp á tæp 7% sem þýðir að raunverulegt tap sjóðsfélaga var rúmlega 20% eða fimmtungur," segir Einar Hugi.

Aðspurður um hvort slíkt mál geti unnist segist Einar Hugi engu vilja spá um niðurstöðuna fyrirfram „En það segir sig sjálft að menn væru ekki að fara af stað með málið nema að hafa trú á því að eiga möguleika á að ná fram hagstæðri niðurstöðu. Málsóknin er í grófum dráttum reist á því að fjárfestingar og eignasafn sjóðanna hafi ekki verið í samræmi við meðal annars þær reglur sem bankinn sjálfur hafði sett sér, þar sem til dæmis 20% af heildareignum sjóðsins átti að vera í formi ríkisskuldabréfa," segir Einar Hugi. Staðreyndin sé hins vegar sú að engin ríkisskuldabréf hafi verið að finna í eignasafninu. Þá hafi markaðssetning sjóðanna einnig verið verulega ámælisverð.

Kröfulýsingafrestur í þrotabú Glitnis rennur út þann 26. nóvember næstkomandi. „Það er mjög mikilvægt fyrir sjóðsfélaga í Sjóði 9, sem og í öðrum sjóðum sem starfræktir voru á vegum bankans, að lýsa kröfum sínum til slitastjórnar Glitnis innan kröfulýsingfrestsins. Að öðrum kosti er hætta á réttarspjöllum verði niðurstaða dómstóla á þá leið að skaðabótaskylda gagnvart sjóðsfélögum verði viðurkennd," segir Einar Hugi Bjarnason.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×