Viðskipti innlent

Vonast eftir vaxtalækkun og afnámi hafta hið fyrsta

Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson

Forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnurekanda (SA) fagna því að niðurstaða sé fengin í samningum Breta og Hollendinga vegna Icesave-málsins. „Það skiptir okkur verulegu máli að okkur hafi tekist að ná samkomulagi við þessar þjóðir, því öll önnur mál hafa verið á bið hér.

Nú er hægt að vinna að efnahagsáætlunum sem áttu að koma okkur úr þeim vandræðum sem við eru í," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

„Stöðugleikasáttmálinn hefur verið frosinn síðan í júní í þessari deilu og er nú kominn nálægt því að liðast í sundur. Þessi samningur er forsenda þess að við getum haldið áfram að vinna að honum," segir Gylfi sem vonar að Seðlabankinn lækki vexti og endurskoði gjaldeyrishöft sem fyrst.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, tekur undir það: „Samningurinn er stórt skref í þá átt að koma á eðlilegu flæði fjármagns til og frá landinu. Það þarf að nota það til að afnema höftin og lækka vexti. Þetta er eitt af því sem við erum að ræða á fundum um framlengingu stöðugleikasáttmálans."

Vilhjálmur segir stöðuga fundi um stöðug­leikasáttmálann þessa dagana en hann sé ekkert sérstaklega bjartsýnn um framhald hans.

„Við erum auðvitað að vinna í málinu á þeim forsendum að hann haldi. Nú þurfum við bara að sjá hvaða viðbrögð fylgja Icesave-samningnum," segir Vilhjálmur sem segir lykilatriði að farið verði í stóru fjárfestingarnar í atvinnulífinu, álver og byggingu gagnavera. Þær séu mikilvægt skref til að komast út úr kreppunni, Auk þess sem gert sé ráð fyrir þeim í forsendum fjárlaga. Markmið þeirra hrynji ef ekki verði farið í þær. - sbt








Fleiri fréttir

Sjá meira


×