Innlent

Kergja í viðræðum og óvissa um samning

úr aðalsalnum Mikill hiti var í umræðum í gær og fulltrúar G77-ríkjanna komu hver á fætur öðrum í pontu um fundarstjórn sem þeir voru ósáttir við.nordicphotos/afp
úr aðalsalnum Mikill hiti var í umræðum í gær og fulltrúar G77-ríkjanna komu hver á fætur öðrum í pontu um fundarstjórn sem þeir voru ósáttir við.nordicphotos/afp

Mikil spenna var í aðalfundarsalnum í Bella Center í gær. Fulltrúar þróunarríkjanna, G77, voru gríðarlega óánægðir með hvernig haldið var á málum. Þeir komu hver á fætur öðrum í pontu um fundarstjórn og nýr fundarstjóri átti í erfiðleikum með að greiða úr flækjunni. Það tókst þó á endanum og örlítið meiri bjartsýni ríkti í lok dags en í gærmorgun.

Fulltrúar Afríkuríkja höfðu fundað alla nóttina aðfaranótt miðvikudags þegar texti fór á kreik sem geymdi uppkast að lokasamningi. Textinn hleypti illu blóði í fulltrúana, sem fannst fráleitt nóg að gert fyrir þróunarríkin. Textinn bæri allt of mikinn keim af hagsmunum hinna ríkari þjóða. Fulltrúarnir létu vel í sér heyra og gerðu ljóst að slíkur samningur yrði aldrei samþykktur.

Ljóst er að þróunarríkjunum er alvara með því að standa fast á sínum kröfum. Verði ekki fallist á þær telji þau sig óbundin samningum um takmörkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda þegar Kyoto-bókunin rennur út árið 2012. Þau hyggist rétta efnahag sinn við með iðnfyrirtækjum með tilheyrandi útblæstri.

Fyrst og fremst er það sendinefnd Bandaríkjanna sem stendur í vegi fyrir auknum fjárframlögum. Eftir því sem fundað var, aðfaranótt miðvikudags, ríkti nokkur bjartsýni. Símtal frá Obama sem ítrekaði fyrri afstöðu Bandaríkjanna gerði hana að engu og hleypti meri kergju í Afríkuþjóðir. Kínverjar, Indverjar og Brasilíumenn hafa einnig gagnrýnt afstöðu Bandaríkjamanna.

Þá urðu forsetaskipti á ráðstefnunni í gær þegar Connie Hedegård sagði af sér, að sögn til að hleypa þjóðhöfðingja með meiri vigt að stjórninni. Lars Lokke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, gerði enga lukku fyrsta dag sinn í embætti. Í ljós kom að hann var ekki betur inni í málum en svo að hann skildi ekki skammstafanir og honum gekk erfiðlega að halda utan um umræðuna. Honum til afbötunar skal nefnt að skammstafanir hér eru í hundraða tali.

Í lok dagsins virtist aðeins hafa hægst um. Það er þó enn með fullu óvíst hver niðurstaðan verður. Enn halda menn í vonina um að það náist að búa til ramma að samningi sem staðfestur verði í Mexíkó á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×