Viðskipti innlent

Fjórum félögum gert að greiða sekt til FME vegna lagabrota

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME.
Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME.
Fjármálaeftirlitið birti í dag fimm sáttagerðir sem náðst höfðu við nokkur fyrirtæki vegna brota á lögum um verðbréfaviðskipti. Fjögur mál vörðuðu brot á 128. grein laga þar sem dráttur varð á upplýsingagjöf vegna innherja. Eitt brot varðaði við 122. grein sömu laga. Sparisjóður Mýrasýslu þurfti að greiða þrjár milljónir króna í sekt.

Félögin sem gerðust brotleg við 128. grein laga um verðbréfaviðskipti eru Alfesca, HB Grandi, Century Aluminium og Sparisjóður Mýrarsýslu. Í umræddri lagagrein er kveðið á um skyldu útgefenda verðbréfa, til að senda Fjármálaeftirlitinu, í því formi sem eftirlitið ákveður, upplýsingar um fruminnherja, tímabundna innherja og aðila fjárhagslega tengda innherjum.

Alfesca hf. gekkst með sáttinni við því að hafa, sem útgefandi skráðra hlutabréfa, brotið gegn 128. gr., með því að hafa skilað lista yfir fruminnherja og aðila fjárhagslega tengda fruminnherjum þremur og hálfum mánuði of seint til Fjármálaeftirlitsins. Var það mat Fjármálaeftirlitsins að fjárhæð sáttarinnar væri hæfileg en hún nemur 700 þúsund krónum.

HB Grandi hf. gekkst með sátt við áþekku broti, með því að hafa skilað lista yfir aðila fjárhagslega tengda fruminnherjum tæpum fjórum mánuðum of seint til Fjármálaeftirlitsins. Það var mat FME að fjárhæð sáttarinnar væri hæfilega ákveðin kr. 500 þúsund krónur.

Century Aluminium Company. gekkst við því að hafa brotið gegn 128. grein VVL með því að hafa skilað lista yfir aðila fjárhagslega tengda fruminnherjum tæpum fjórum mánuðum of seint til Fjármálaeftirlitsins. Fjárhæð sáttarinnar væri hæfilega ákveðin kr. 700 þúsund krónur.

Þá gekkst Sparisjóður Mýrasýslu við því að hafa brotið annars vegar gegn 128. gr. vvl., með að hafa ekki skilað lista yfir tímabundna innherja til Fjármálaeftirlitsins sumarið 2008, þó að aðilar sem ekki voru á lista yfir fruminnherja hafi á þeim tíma haft aðgang að innherjaupplýsingum. Sjóðurinn gekkst einnig við því að hafa brotið gegn 122. grein sömu laga með því að hafa hvorki birt upplýsingar um slæma stöðu sjóðsins sumarið 2008 þegar í stað, né uppfyllt skilyrði um frestun slíkra upplýsinga. Fyrir fyrra brotið var sjóðnum gert að greiða eina milljón króna en tvær fyrir hið síðarnefnda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×