Viðskipti innlent

Vonar að kröfuhafar eignist Íslandsbanka

Skilanefnd Glitnis ásamt fulltrúum fjármálaráðuneytisins og fulltrúum Íslandsbanka gengu í gær frá samkomulagi sem býður kröfuhöfum Glitnis tvo kosti til að fá verðmæti fyrir kröfur sínar.Fréttablaðið/Anton
Skilanefnd Glitnis ásamt fulltrúum fjármálaráðuneytisins og fulltrúum Íslandsbanka gengu í gær frá samkomulagi sem býður kröfuhöfum Glitnis tvo kosti til að fá verðmæti fyrir kröfur sínar.Fréttablaðið/Anton

Fjármálaráðuneytið og skilanefnd Glitnis fyrir hönd kröfuhafa bankans undirrituðu í gær samkomulag um uppgjör vegna Glitnis.

Samkvæmt samkomulaginu fá kröfuhafar Glitnis tvo kosti að velja úr fram til 30. september næstkomandi. Annars vegar geta þeir valið að eignast 95 prósenta hlut í Íslandsbanka fyrir kröfur sínar í Glitni og hins vegar stendur þeim til boða skuldabréf sem Íslandsbanki gæfi út. Þessum síðari kosti fylgir síðan að kröfuhafarnir fá forkaupsrétt á allt að 90 prósenta hlut í Íslandsbanka á árunum 2011 til 2015.

Verði fyrri kosturinn ofan á mun ríkið eiga aðeins 5 prósent í Íslandsbanka og fá til baka stærstan hluta þeirra 65 milljarða króna sem lagðar voru til bankans sem eiginfé í sumar. Ríkið myndi þó veita bankanum 25 milljarða víkjandi lán.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir það stóran áfanga að málið sé í höfn með samkomulagi aðila. Sambærilegt samkomulag var gert við skilanefnd gamla Kaupþings í sumar en þar hafa kröfuhafar frest út október til að gera upp hug sinn. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir samkomulagið sanngjarnt og hagsmunir kröfuhafa séu varðir eins vel og hægt sé.

Fjármálaráðherra segir að í ljósi stöðunnar séu báðir ofangreindir kostir ágætir. Hann kveðst þó vonast til að meiri líkur séu á að kröfuhafar velji í báðum tilvikum þann kost að eignast bankana, meðal annars í ljósi þeirra byrða sem ríkið hefur þurft að taka á sig.

„Ef þetta yrði niðurstaðan í tilviki bæði Íslandsbanka og Kaupþing þá munar það stórum fjárhæðum fyrir ríkið. Það hefði þann kost að þar með ættu kröfuhafarnir þeirra hagsmuna að gæta að bankakerfinu vegni vel. Þeir taka sér þá stöðu ekki bara með bönkunum heldur íslenska hagkerfinu og eru að veðja á gott gengi þess í framtíðinni. Það hefði góð áhrif á andrúmsloftið í samskiptum Íslands við fjármálaheiminn út á við,“ segir Steingrímur sem aðspurður kveðst ekki óttast að með breyttu eignarhaldi bankanna verði örðugra um vik fyrir ríkisvaldið að ná markmiðum um endurreisn atvinnulífsins og stuðning við heimili landsmanna:

„Það verður sameiginlegt hagsmunamál bankanna og þeirra viðskiptavina að það leysist vel úr þeirra málum – enda er þegar frá því gengið og undirbúið hvernig bankarnir vinni að því. Ég hef ekki trú á því að vegna þess að eignarhald einhvers banka væri svona en ekki hinsegin að hann færi að skerast úr leik í þeim almennu aðgerðum og ráðstöfunum sem eru í gangi.“ gar@frettabladid.is

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.