Indverjar og Albanar eru komnir í harða deilu um jarðneskar leifar Móður Teresu sem lést árið 1997.
Móðir Teresa var albönsk að uppruna. Hún fæddist í borginni Skopje sem nú tilheyrir Makedóníu.
Hún er jarðsett í Kalkútta á Indlandi þar sem hún byrjaði að reka hæli fyrir munaðarlaus börn og starfaði lengst af ævi sinnar.
Í ágúst á næsta ári verða liðin eitthundrað ár frá fæðingu hennar. Búist er við að þá verði búið að taka hana í dýrlingatölu.
Þá má gera ráð fyrir að mikill fjöldi ferðamanna og pílagríma vilji heimsækja gröf hennar færandi með sér umtalsverðan gjaldeyri.
Fréttaskýrendur segja allt eins líklegt að Makedónía blandi sér í deilurnar um jarðneskar leifar hennar.