Viðskipti innlent

Sex milljarða króna lántaka Reykjavíkurborgar frestast um sinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ráðhús Reykjavíkur. Mynd/ GVA.
Ráðhús Reykjavíkur. Mynd/ GVA.
Reykjavíkurborg hafnaði öllum tilboðum sem bárust í skuldabréfaútboði sem borgarráð samþykkti að fara í þann 1. desember síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni sem birtist á vef Kauphallarinnar. Ástæðan er sú að Reykjavíkurborg telur að ávöxtunarkrafan sé of há.

Borgarráð hafði samþykkt lántöku vegna framkvæmda á næsta ári að fjárhæð allt að 5.8 miljarðar króna til 45 ára með stækkun á skuldabréfaflokki Reykjavíkurborgar. Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, segir að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar liggi fyrir ákvörðun um að taka skuldabréfalán vegna framkvæmda á næsta ári. Þetta sé í samræmi við framkvæmdaáætlun sem fylgi fjárhagsáætluninni.

„Samþykkt þessarar fjárfestingaráætlunar byggir á því að fjármögnun takist með ásættanlegum hætti og ég tel nú bara að þessi tilraun sé komin á enda. Svo veltum við því bara fyrir okkur hvaða möguleika við höfum, en þetta getur allt tekið sinn tíma," segir Birgir Björn Sigurjónsson.

Aðspurður um það hve há ávöxtunarkrafan í tilboðunum sem bárust hafi verið vísar Birgir á Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar til svara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×