Viðskipti innlent

Ráku eigin banka á Íslandi vegna hagstæðra skatta

Daily Mail Breska götublaðið er rekið af alþjóðlegu stórfyrirtæki sem stofnaði keðju fyrirtækja á Íslandi til þess að stunda lánveitingar innan samstæðunnar.Nordicphotos/AFP
Daily Mail Breska götublaðið er rekið af alþjóðlegu stórfyrirtæki sem stofnaði keðju fyrirtækja á Íslandi til þess að stunda lánveitingar innan samstæðunnar.Nordicphotos/AFP

Breska fjölmiðlasamsteypan Daily Mail and General Trust plc. hefur undanfarin ár rekið fjögur íslensk dótturfélög, sem hafa annast lánveitingar milli félaga innan samsteypunnar. Umsvifin nema milljörðum króna árlega. Hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja hefur laðað fyrirtækin að landinu. Ársreikningar þeirra benda til að þau séu að undirbúa að flytjast úr landi í kjölfar efnahagshrunsins, segir löggiltur endurskoðandi sem gluggaði í ársreikninga þeirra fyrir Fréttablaðið.

Uppbygging þessara dótturfélaga er þannig að fyrirtækið DMG Atlantic, sem er breskt félag, er skráður eigandi íslenska félagsins DMG Holdings. DMG Holdings virðist hafa það hlutverk að halda utan um eignarhald og greiða skatta DMG félaganna hér á landi. DMG Holdings á Íslandi var í 8. sæti yfir þá lögaðila sem greiða hæstan tekjuskatt á Íslandi í ár, eða rúmar 160 milljónir króna.

Dótturfélögin eru DMG Finance, sem er aftur skráður eigandi í DMG Lending og DMG Investments. DMG Finance hefur rúmlega 1,2 milljarða Bandaríkjadala, eða um 150 milljarða íslenskra króna, í hlutafé, og DMG investmenst hefur 129 milljarða japanskra jena, eða um 180 milljarða króna í skráð hlutafé. DMG Lending var afskráð hér á landi 21. september sl.

Baldvin Björn Haraldsson, sem hefur verið lögfræðingur DMG hér á landi og setið í stjórn tveggja félaganna, segir að starfsemin hafi ekki verið önnur en sú að hingað hafi borist fjármunir sem eru notaðir til þess að fjármagna lán til annarra félaga í samstæðunni. Hagstæðir skattar hafi laðað starfsemina að landinu. Umsvifin ráðist af aðstæðum innan samstæðunnar hverju sinni.

„Það má segja að þeir hafi stofnað banka hérna til þess að lána til tengdra aðila og spara sér skattgreiðslur,“ segir löggiltur endurskoðandi sem gluggaði í ársreikninga félaganna fjögurra fyrir Fréttablaðið. „Hugmyndin með lækkun fjármagnstekjuskatta á sínum tíma var að fá hingað fyrirtæki af þessu tagi.“

Endurskoðandinn segir að ársreikningarnir sýni að eitt félaganna sé breskur skattþegn frá 1. apríl 2008. Það sé vísbending um að til standi að draga úr starfseminni hér á landi og komi ekki á óvart í ljósi efnahagsaðstæðna og hugmynda um að hækka skatta á fyrirtæki.peturg@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Skattalegar ástæður

„Þessi fyrirtæki eru hér af skattalegum ástæðum, þau greiða minni skatta en ef þau væru í Bretlandi,“ segir Baldvin Björn Haraldsson, hdl., sem á sæti í stjórnum DMG Lending og DMG Investments á Íslandi. Hann segir að starfsemi DMG fyrirtækjanna á Íslandi snúist um lánveitingar milli fyrirtækja innan DMG-samstæðunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×