Viðskipti innlent

Fyrrverandi og núverandi ríkisskattstjóri rífast fyrir dómi

Skúli Eggert Þórðarsson, ríkisskattstjóri, og Garðar Valdimarsson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, takast nú á fyrir dómstólum, um túlkun skattalaga. Deilt er um hvort fyrrverandi forstjóri Straums eigi að greiða tekjuskatt vegna söluréttarsamnings, eða einungis fjármangstekjuskatt.

Þórður Már Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Straums, gerði árið 2003 samning um svonefndan sölurétt af hlutabréfum sem hann eignaðist í félaginu. Fyrir bréfunum fékk hann kúlulán í banka.

Forstjórinn seldi bréfin síðar með miklum hagnaði. Hann taldi fram hátt í fimmtíu milljónir króna, til greiðslu fjármagnstekjuskatts. Skúli Eggert Þórðarsson, ríkisskattstjóri féllst ekki á þetta. Taldi að greiða ætti tekjuskatt af peningunum.

Ákvörðunin var kærð til yfirskattanefndar. Hún féllst á túlkun ríkisskattstjóra. Það þýðir að forstjórinn fyrrverandi þyrfti að óbreyttu að greiða tugi milljóna í tekjuskatt aftur í tímann.

Forstjórinn fyrrverandi hefur haft lögmann sér til aðstoðar í málinu gegn Skúla Eggerti. Sá er Garðar Valdimarsson, sem var í embætti ríkisskattstjóra árin 1987 til 1996.

Málinu hefur verið vísað til dómstóla. Það var þingfest í sumar, og þess er nú beðið að því verði úthlutað til dómara.

En málið snýr þá þannig að núverandi ríkisskattstjóri og forveri hans; fyrrverandi ríkisskattstjóri, takast nú á um það fyrir dómstólum, hvernig eigi að túlka skattalög.

Haft var eftir Skúla Eggerti í Fréttablaðinu í vikunni að vegna þess hvernig þeir sem gerðu söluréttarsamninga hefðu talið fram, hefði ríkið verið hlunnfarið um hundruð milljóna króna. Slíkir samningar geti hlaupið á tugum eða hundruðum; en hann hefur heimild til að skoða svona mál sex ár aftur í tímann. Fréttastofu er sagt að vinni forstjórinn málið fyrir dómi; gæti ríkið fengið yfir sig holskeflu málsókna. Vinni núverandi ríkisskattstjóri málið gætu hins vegar háar endurgreiðslur vofað yfir þeim sem töldu aðeins fram fjármagnstekjur af svona samingum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×