Viðskipti innlent

Greining gagnrýnir hringlandahátt Seðlabankans

„Væri ekki úr vegi að bankinn útskýrði betur slík frávik frá yfirlýstri stefnu sinni, þar sem slíkar fyrirvaralausar og óútskýrðar breytingar á framkvæmd peningastefnunnar eru ekki til þess fallnar að auka gagnsæi peningastefnunnar eða trúverðugleika bankans."

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem rætt er um útboð Seðlabankans á innistæðubréfum í dag en athygli vekur að í tilkynningu um útboðið var tekið fram að aðeins yrðu 10 milljarðar kr. í boði.

Greiningin bendir á að við síðustu vaxtaákvöðrun Seðlabankans var tilkynnt að hámarksupphæð í vikulegum útboðum innstæðubréfa yrði hækkuð úr 25 milljörðum kr. í 30 milljarða kr. og efri mörk vaxtabils voru á sama tíma hækkuð úr 10% í 10,25%. Átti þetta að vera til mótvægis við lækkun vaxta bankans og verða til þess að slökun á peningalegu aðhaldi sem í vaxtalækkuninni fólst yrði minni en ella.

Umfjöllunin í heild hljóðar svo: „Upphæð samþykktra tilboða í útboði Seðlabankans á innstæðubréfum í dag var sú næstlægsta frá því farið var að gefa út innstæðubréf með núverandi sniði í septemberlok. Alls var tekið tilboðum fyrir tæplega 5,3 milljarða kr., en á móti eru bréf upp á 4,8 milljarða kr. á gjalddaga í dag. Heildarstabbi útistandandi innstæðubréfa hækkaði því lítillega og er nú 67,4 miljarðar kr. Meðalvextir í útboðinu voru 10,18% sem eru lítillega lægri vextir en í tveimur undanförnum útboðum.

Athygli vekur að í tilkynningu um útboðið var tekið fram að aðeins yrðu 10 milljarðar kr. í boði. Við síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans var tilkynnt að hámarksupphæð í vikulegum útboðum innstæðubréfa yrði hækkuð úr 25 milljörðum kr. í 30 milljarða kr. og efri mörk vaxtabils voru á sama tíma hækkuð úr 10% í 10,25%. Átti þetta að vera til mótvægis við lækkun vaxta bankans og verða til þess að slökun á peningalegu aðhaldi sem í vaxtalækkuninni fólst yrði minni en ella.

Tilkynning gærdagsins um 10 milljarða kr. hámark virðist við fyrstu sýn ganga þvert gegn þessari ætlan bankans, því takmarkað framboð er líklegt til að lækka niðurstöðuvexti í útboðunum og þar með draga heldur úr peningalegu aðhaldi. Sú varð að minnsta kosti raunin í dag þótt breytingin væri að sönnu lítil. Væri ekki úr vegi að bankinn útskýrði betur slík frávik frá yfirlýstri stefnu sinni, þar sem slíkar fyrirvaralausar og óútskýrðar breytingar á framkvæmd peningastefnunnar eru ekki til þess fallnar að auka gagnsæi peningastefnunnar eða trúverðugleika bankans."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×