Viðskipti innlent

Ríkissjóður: 118 milljarða viðsnúningur til hins verra

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu sjö mánuði ársins 2009 liggur nú fyrir. Samkvæmt uppgjörinu er handbært fé frá rekstri neikvætt um 91 milljarða kr., sem er 118,1 milljarða kr. lakari útkoma en á sama tíma í fyrra. Tekjur reyndust 37,4 milljarða kr. minni en í fyrra meðan gjöldin jukust um 71,6 milljarða kr.

Í frétt um málið frá fjármálaráðuneytinu segir að innheimtar tekjur ríkissjóðs á fyrstu sjö mánuðum ársins voru tæplega 227 milljarðar kr. sem er um 37 milljarða kr. minni tekjur en á sama tíma árið 2008. Áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir að innheimtar tekjur yrðu tæplega 247 milljarðar kr. og er frávikið því 20 milljarðar kr. Munar mest um lægri skatta á vöru og þjónustu en gert var ráð fyrir í áætluninni.

Skatttekjur og tryggingagjöld námu tæplega 197 milljörðum kr. sem endurspeglar 18,2% samdrátt að nafnvirði eða 30,6% að raunvirði miðað við hækkun almenns verðlags. Samdrátturinn milli ára jókst að raunvirði frá síðasta mánuði og er 31,1% þegar horft er til 4 mánaða meðaltals. Þá jukust aðrar rekstrartekjur ríkissjóðs umtalsvert frá sama tíma árið 2008 en þær voru nú tæplega 29 milljarða kr. sem endurspeglar 37,7% hækkun að nafnvirði. Í áætlun fjárlaga var gert ráð fyrir tæpum 21 milljarða kr. og er frávikið því 8 milljarða kr. en þar skýra auknar vaxtatekjur meginmuninn.

Greidd gjöld nema 308,6 milljörðum kr. og hækka um 71,6 milljarða kr. frá fyrra ári, eða um 31%. Milli ára hækka útgjöld mest til almannatrygginga og velferðarmála um 28,6 milljarða kr. sem skýrist að mestu með 13,5 milljarða kr. hækkun útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs á milli ára, 8,3 milljarða kr. hækkun á vaxtabótum, 3,5 milljarða kr. hækkun á barnabótum og 1,1 milljarða kr. hækkun á bótum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Útgjöld til almennrar opinberrar þjónustu hækkuðu um 23,9 milljarða kr., þar sem vaxtagreiðslur ríkissjóðs skýra 22,4 milljarða kr. Útgjöld til heilbrigðismála aukast um 7,6 milljarða kr. milli ára þar sem útgjöld til sjúkratrygginga skýra 5,8 milljarða kr. og útgjöld til Landspítala aukast um 890 milljónir kr.

Útgjöld til menntamála aukast um 2,7 milljarða kr. þar sem útgjöld til Lánasjóðs íslenskra námsmanna aukast um 1,1 milljarð kr. milli ára og útgjöld til framhaldsskóla um 1,6 milljarða kr. Útgjöld til efnahags- og atvinnumála aukast um 2,7 milljarða kr. og skýra framkvæmdir Vegagerðarinnar um 609 milljónir kr. og Hafnarbótasjóður 950 milljónir kr. Þá aukast útgjöld til Ábyrgðasjóðs launa um 572 milljónir kr. á milli ára.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×