Viðskipti innlent

Gjaldeyrissvik veikja gengi krónu verulega

Heildarfjárhæð viðskipta sem Seðlabankinn hefur til athugunar vegna brota á gjaldeyrisreglum er litlu lægri en verðmæti alls þorskútflutnings frá landinu fyrstu níu mánuði þessa árs.

Heildarupphæð viðskipta sem Seðlabankinn hefur til athugunar vegna brota nemur rúmum 57,5 milljörðum króna. Meint brot voru framin á rúmlega tíu mánaða tímabili frá 28. nóvem­ber 2008 til 1. október 2009. Að auki bíða um 100 mál skoðunar og munu fjárhæðir því hækka umtalsvert þegar fram líða stundir, að því er fram kemur í svari Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Ásbjörns Óttars­sonar, þingmanns Sjálfstæðis­flokksins, sem sagt var frá í Fréttablaðinu í gær.

Til samanburðar má nefna að samkvæmt vef Hagstofu Íslands nam verðmæti á útfluttum þorski frá Íslandi á níu mánaða tímabilinu frá 1. janúar til 1. október á þessu ári 61,6 milljörðum króna.

Fjárhæðir þeirra mála sem þegar eru til skoðunar vegna brota á gjaldeyrisreglum á tíu mánaða tímabili jafngilda því að verðmæti 93,3 prósentum af níu mánaða þorskútflutningi.

Verðmæti allra útfluttra sjávarafurða nam 172,8 milljörðum króna fyrstu níu mánuði ársins en heildarútflutningur vöru og þjónustu var 555,4 milljarðar króna. Meint gjaldeyris­svik nema því 10,3 prósentum af heildar­útflutningi vöru og þjónustu fyrstu níu mánuði ársins.

Svo umfangsmikil brot á gjaldeyrisreglum veikja gengi krónunnar verulega, að sögn Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði. Hann treystir sér ekki til að nefna hlutfallstölur í því sambandi.

Þórólfur segir að líklega sé ávinningur þeirra sem stundað hafa svikin í hæsta lagi helmingur heildarfjárhæðarinnar „og sennilega þó töluvert undir því," segir hann.„Það er verið að selja í leiðinni vöru og þjónustu."

Í svari efnahagsráðherra við fyrirspurninni segir að ekki sé hægt að veita upplýsingar um hvaða starfsemi þeir lögaðilar stunda sem grunaðir eru um brot á gjaldeyrisreglunum. 134 lög­aðilar áttu hlut að viðskiptum með 91,93 prósent heildarfjárhæðarinnar en 110 einstaklingar hlut að viðskiptum með 8,07 prósent af heildarfjárhæðinni. - pg / sjá síðu 10








Fleiri fréttir

Sjá meira


×