Innlent

Hvítá veitt undir hluta nýju brúarinnar

Brúarsmiðir við Hvítá í Árnessýslu vinna að því fram á nótt að veita fljótinu undir þann hluta nýju brúarinnar við Bræðratungu sem er tilbúinn og verður þá unnt að ganga þurrum fótum yfir.

Þrjú brúarhöf af fimm eru tilbúin og hófu brúarsmiðir upp úr hádegi að hleypa Hvítá undir þennan fyrri áfanga mannvirkisins. Vinnuvélar rufu þá skarð í varnargarða, sem varið hafa vinnusvæðið, og er áætlað að um miðnætti verði öll áin farin að renna undir brúna.

Þar með verður hægt að ganga þurrum fótum milli Flúða og Bræðratungu en jafnframt að hefja undirbúning að smíði síðari áfangans í farvegi árinnar, sem haldið verður þurrum með nýjum varnargörðum sem lokið verður við í kvöld. Hlé verður þó gert á brúarsmíðinni fram í febrúar.

Vegur vestan ár frá Tungufljóti að Hvítá er langt kominn en aðalverktakinn, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, byrjar hins vegar strax milli jóla og nýárs á vegarlagningu austan ár frá Flúðum og að brúarstæðinu. Áætlað er að nýja brúin verði opnuð umferð síðla næsta sumars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×