Viðskipti innlent

Ríkið semur um milljarð evra í skuldabréfum í Lúxemborg

Samningar um kaup ríkisins af Seðlabanka Lúxemborgar á íslenskum ríkisskuldabréfum og breskum skuldabréfum sem voru áður í eigu Landsbankans að upphæð ríflega einn milljarður evra eru á lokasprettinum.

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir að með þessum samningum muni skilanefnd Landsbankans fá aðgang að kröfum í dótturfélag bankans í Lúxemborg. Þar er um að ræða kröfur upp á nokkra tugi milljarða kr. sem síðan myndu væntanlega nýtast til að lækka Icesave-skuldbindingar ríkisins.

„Stóru íslensku bankarnir þrír voru alllir með dótturfélög í Lúxemborg. Það er búið að ganga frá málum Glitnis og Kaupþings þar í landi en eftir standa skuldir Landsbankans," segir Gylfi. „Þar er um að ræða skuldir við Seðlabanka Lúxemborgar sem var fulltrúi Seðlabanka Evrópu í viðskiptunum við Landsbankann."

Fram kemur í máli Gylfa að tvö veð hafi verið fyrir lántöku Landsbankans í þessum viðskiptum. Annarsvegar er um að ræða íslensk ríkisskuldabréf í krónum sem metin eru á um 900 milljónir evra eða um 165 milljarða kr. og hinsvegar skuldabréf sem Landsbankinn í London gaf út og eru í pundum eða öðrum gjaldmiðlum.

„Okkur finnst mikilvægt að fá þessi ríkisskuldabréf heim og munum í staðinn gefa út skuldabréf í evrum til Seðlabankans í Lúxemborg," segir Gylfi. „Við gætum síðan vel hugsanlega selt ríkisskuldabréfin á markaði hérlendis."

Að sögn Gylfa er nú verið að semja um gengið og vaxtakjörin í þessum samningum en hann telur að sú vinna sé nú á lokasprettinum. Það hafi hinsvegar flækt málin að dótturfélag Landsbankans í Lúxemborg er í gjaldþrotameðferð þar í landi. Hún fari eftir þarlendum lögum og reglum og eigi Íslendingar ekki aðkomu að henni.

„Með þessum samningum nú breytist sú staða og Landsbankinn fær greitt af kröfum sínum í þrotabú dótturfélagsins," segir Gylfi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×