Viðskipti innlent

Hagstæðari skattar fyrir nýsköpunarfyrirtæki

Telma Tómasson skrifar

 

 

Stjórnvöld hyggjast styðja við þróunar- og nýsköpunarfyrirtæki í landinu með hagstæðara skattaumhverfi. Í því augnamiði kynnti fjármálaráðherra frumvarp á ríkisstjórnarfundi í gær.

Frumvarpið miðar að því að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja, en það er eitt af stefnumálum núverandi ríkisstjórnar að stuðla að framgangi sprotafyrirtækja og þróunarverkefna.

 

Frumvarpið gerir annars vegar ráð fyrir skattafrádrætti vegna rannsóknar- og þróunarverkefna þeirra aðila sem stunda skattskyldan atvinnurekstur á Íslandi og hafa fengið slík verkefni viðurkennd af Rannís.

 

Hins vegar gerir frumvarpið ráð fyrir heimild manna og lögaðila til skattaafsláttar vegna kaupa á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum.

 

Verði frumvarpið að lögum er vonast til að störfum í rannsóknum og þróun hjá íslenskum sprotafyrirtækjum fjölgi og hvati verði til hjá rótgrónari fyrirtækjum til að skapa ný atvinnutækifæri.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×