Innlent

Spyr hvort Varnarmálastofnun hafi brotið NATO reglur

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra. Mynd/Anton Brink

Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, veltir fyrir sér í dagbókarfærslu á heimasíðu sinni hvort Varnarmálastofnun hafi brotið gegn reglum NATO þegar hún birti opinberlega upplýsingar um ferðir rússneskra kafbáta á Drekasvæðinu.

„Þess var ekki getið, hvernig stofnunin aflaði þessara upplýsinga. Ástæða er til að velta fyrir sér, hvort samræmist reglum NATO að birta þær opinberlega," segir Björn.

Þá nefnir hann það sem hugsanlega skýringu að stofnunin hafi verið að réttlæta tilvist sína gagnvart Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar og þingmanni Vinstri grænna, og flokkssystkinum hans.

Þá gagnrýnir hann Ellisif Tinnu Víðisdóttur, forstjóra Varnarmálastofnunar, fyrir að fullyrða í útvarpsviðtali að starfsemi stofnunarinnar sé skilyrði fyrir aðild Íslands að NATO.

„Hvergi segir í samningum Íslands við NATO, að hér skuli starfa varnarmálastofnun," segir Björn.

Hann segir ekki síður undarleg ummæli Árna Þórs um að loftrýmisgæsla undir merkjum NATO snerti ekki hagsmuni Íslands, en bætir við að Varnarmálastofnun sé ekki forsenda eftirlitsins.

Björn klykkir út með því að segja brotalamir hafa verið á starfsemi varnarmálastofnunar frá upphafi og bætir við að það sé tímaskekkja að utanríkismálaráðuneytið taki þátt í rekstri stofnunarinnar.

Færslu Björns má í heild sinni lesa hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×