Viðskipti innlent

Útgáfa innistæðubréfa er dulbúin vaxtahækkun

Leið má góðar líkur á því að boðuð útgáfa innistæðubréfa sé dulbúin vaxtahækkun af hálfu Seðlabankans. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Seðlabankans.

 

Í Morgunkorninu segir að tilgangur þess að hefja útgáfu innstæðubréfa að nýju er að draga úr lausu fé í umferð og færa þar með vaxtastig innlánsvaxta í fjármálakerfinu nær vöxtum Seðlabankans. Undanfarið hafa innlánsvextir á millibankamarkaði verið mun lægri en innlánsvextir Seðlabankans.

 

Telur bankinn þetta grafa undan krónunni þar sem sá vaxtamunur sem fjármagnseigendur standa frammi fyrir milli Íslands og annarra landa er í raun talsvert minni en munur stýrivaxta gefur til kynna.

 

Seðlabankinn tilkynnti í morgun að bankinn myndi á ný hefja útgáfu innstæðubréfa til innlendra fjármálastofnana. Bréfin, sem verða bundin til 28 daga, verða boðin upp vikulega og hefst útgáfa þeirra næstkomandi miðvikudag.

 

Á hverju uppboði verða seld innstæðubréf að andvirði 15 - 25 ma.kr. og geta fjármálastofnanir sem eru í viðskiptum við Seðlabankann boðið í vexti þeirra, lægst 9,5% en hæst 10% vexti. Til samanburðar voru fastir vextir á þeim innstæðubréfum sem boðið var upp á í júlí, og voru þeir 9,75%.



Greining Íslandsbanka segir að þrátt fyrir áhyggjur Seðlabankans af ofgnótt lausafjár hefur bankinn ekki verið ýkja fastur í rásinni hvað varðar lausafjárstýringu í fjármálakerfinu undanfarið. Í kjölfar þess að hætt var útgáfu framseljanlegra innstæðubréfa, sem að mestu voru í eigu útlendinga, í júní hóf bankinn útgáfu 7 daga innstæðubréfa til fjármálastofnana sem ekki voru framseljanleg. Á sama tíma hætti bankinn að bjóða upp á bundin innlán fyrir fjármálastofnanir.

 

Bankinn minnkaði síðan jafnt og þétt þá upphæð innstæðubréfa sem hann var tilbúinn að selja fjármálastofnunum úr 75 milljörðrum kr. í upphafi júlímánaðar í 35 milljarða kr. í júlílok. Í ágúst og september bauð Seðlabankinn svo ekki upp á nein innstæðubréf, fyrr en með útgáfunni sem tilkynnt var um í morgun.

 

„Þessi þróun er athyglisverð í ljósi þeirrar skoðunar bankans að ofgnótt lausafjár í fjármálakerfinu standi peningastjórnuninni og styrkingu krónu fyrir þrifum um þessar mundir," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×