Viðskipti innlent

Yfir 300 milljóna velta í Innovit hagkerfinu

Á aðalfundi Innovit sem fram fór í dag kom fram að heildarvelta Innovit sprotafyrirtækja muni fara yfir 300 milljónir árið 2009 og sköpuð hafa verið 106 ný störf. Í ársskýrslu félagsins sem kynnt var á fundinum kemur einnig fram að í það minnsta tólf ný fyrirtæki hafa verið stofnuð eftir þátttöku sína í Gullegginu, frumkvöðlakeppni Innovit.

Í tilkynningu um fundinn segir að auk þess eru frumkvöðlar að vinna að undirbúningi að stofnun tíu fyrirtækja til viðbótar. Innan Innovit hagkerfisins teljast öll þau fyrirtæki sem Innovit hefur aðstoðað og hafa nýtt sér frumkvöðlakeppnina Gulleggið sem stökkpall við stofnun nýrra fyrirtækja á Íslandi.

„Við hjá Innovit erum afar stolt af þessum árangri sem sýnir að með starfsemi okkar höfum við getað lagt hönd á plóg til uppbyggingar nýrra fyrirtækja og atvinnu á Íslandi," segir Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Innovit.

„Einungis einu ári eftir að Gulleggið var haldið í fyrsta sinn árið 2008 hefur velta fyrirtækja sem teljast til Innovit hagkerfisins vaxið frá 130 milljónum árið 2008 og tæplega þrefaldast á innan við ári. Við teljum að þetta sýni vel hversu öflugt einkarekið stuðningskerfi nýsköpunar er að verða á Íslandi"








Fleiri fréttir

Sjá meira


×