Viðskipti innlent

Hæstu skattgreiðendur af ólíklegasta tagi

Mynd/Stefán Karlsson
Ríki, sveitarfélög, álbræðslur, bandarískir verðbréfasalar og dótturfélög nær gjaldþrota Exista greiða hæstu skatta lögaðila á þessu ári. Hæstu skattgreiðendur í umdæmum landsins eru af ólíklegasta tagi, þannig ratar dúkkulísufyrirtæki bókasafnsfræðings frá Ísafirði inn á topp tíu listann á Vestfjörðum.

Í dag var upplýst hvað fyrirtæki, félög og aðrir lögaðilar borga í skatta fyrir árið 2008. Fátt kemur á óvart, á Reykjanesi greiðir álverið mest tæpan milljarð. Athygli vekur að óþekkta eignarhaldsfélagið Icecraft er í fjórða sæti, borgar yfir 200 milljónir en það mun vera umboðsverslun með vélar, skip og flugvélar.

Á Suðurlandi greiðir Árborg mest, þá byggingafyrirtækið Jáverk, sem er þó ekki hálfdrættingur á við sveitarfélagið - þá Heilsuhælið í Hveragerði. Í Eyjum raða sjávarútvegsfyrirtækin sér í efstu sætin en á Norðurlandi eystra borgar Akureyrarkaupstaður yfir tvöfalt meira en flaggskipið Samherji, lítið verðbréfafyrirtæki er í fjórða sæti og skurðlæknirinn Hjörtur í tíunda.

Á Norðurlandi vestra borga sjávarútvegsfyrirtækin mest en á Vestfjörðum greiðir Ísafjarðarbær sjálfur heldur meira en Hraðfrystihúsið Gunnvör. Lítið hugarfóstur Ingu Maríu Guðmundsdóttur bókasafnsfræðings kemst þar svo í áttunda sæti, en hún heldur úti vefsíðunni Dress up games - sem er dúkkulísuleikur fyrir ungviði internetsaldar.

Á Vesturlandi borgar álbræðsla Norðuráls langmest, um 745 milljónir króna, Borgarbyggð einn áttunda af því og í sjötta sæti er Loftorka, nú gjaldþrota.

Stærsti skattgreiðandi lögaðila í ár er ríkið sjálft en þess utan greiðir fjárfestingafélagið Exista Trading ehf. hæstu skatta af reykvískum fyrirtækjum - rúmlega einn og hálfan milljarð króna. Móðurfélag þess er Exista sem nú rambar á barmi gjaldþrots. Og loks borga bandarísku verðbréfasalarnir sem eiga Fluke Finance til íslensku samneyslunnar tæpar 530 milljónir króna.


Tengdar fréttir

Árborg greiðir hæstu gjöldin á Suðurlandi

Sveitarfélagið Árborg greiðir hæstu opinberu gjöldin í Suðurlandsumdæmi vegna tekjuársins 2008 samkvæmt álagningu skattstjóra 30. október 2009. Næst hæstu gjöldin greiðir JÁVERK ehf., en þeir greiða rétt tæpar 42 milljónir í opinber gjöld.

Ábatasöm útrás skurðlæknis

Ábatasöm útrás íslensks skurðlæknis og sérfræðings í magahjáveituaðgerðum skilar Norðurlandi eystra milljónatugum í skatttekjur þessu ári. Fjögur þúsund sjúklingar leggjast undir hnífinn hjá fyrirtækinu í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×