Viðskipti innlent

Greiðslur í peningamarkaðssjóði skoðaðar í ráðuneytinu

Til stendur, í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, að hefja athugun á tugmilljarða greiðslum nýju bankanna í peningamarkaðssjóði föllnu bankanna. Greiðslur bankanna í sjóðina geta kostað skattgreiðendur stórfé.

Nýju Ríkisbankarnir vörðu ríflega 83 milljörðum króna í að kaupa upp bréf sem voru í peningamarkaðssjóðum bankanna. Lang mest fór í að kaupa bréf úr sjóðum Landsbankans. 63 milljarðar króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Misjafnt var hvernig peningamarkaðssjóðirnir voru saman settir.

Fram hefur komið að í sjóðunum voru skuldabréf frá bönkunum sjálfum. Þau hafa rýrnað mjög að verðgildi. Til að mynda er búist við að innan við helmingur fáist hjá Kaupþingi, í mesta lagi um þriðjungur í gamla Glitni og fimm prósent í gamla Landsbanka. Þarna voru líka skuldabréf frá Milestone, Exista og Bakkavör, FL Group/Stoðum, Samson, Baugi, Atorku og Eglu. Þessi félög eru meira eða minna gjaldþrota eða í greiðslustöðvun. Óvíst er um heimtur.

Fullyrt var á sínum tíma að uppkaupin hefðu farið fram á viðskiptalegum forsendum; það sagði til að mynda Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra. Fram kom í Morgunblaðinu um helgina að byggt hefði verið á mati frá endurskoðunarfyrirtækjum. Ljóst sé að matið standist ekki raunveruleikann.

Samkvæmt heimildum fréttastofu innan úr efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, stendur til að skoða þessi uppkaup ríkisbankanna á bréfum í peningasjóðunum. „Fara yfir málið," eins og það var orðað. Ekki fengust nákvæmar upplýsingar um þessa skoðun eða að hverju hún beinist. Þá mun lítið af gögnum vera til um málið í ráðuneytinu. Þó hefur fréttastofa heimildir fyrir því að fimmtánda október í fyrra, hafi verið til minnisblað í ráðuneytinu, þar sem gert var ráð fyrir um helmingur myndi endurheimtast úr sjóðum bankanna.

Þá kynnu háar fjárhæðir, jafnvel milljarðar króna að lenda á herðum almennra skattgreiðenda, ef tap lendir á nýju bönkunum vegna þessara kaupa; en eigið fé þeirra gæti rýrnað vegna þess. Íslenska ríkið ætlar að leggja nýju bönkunum til hundruð milljarða króna í eigið fé.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×