Innlent

Lokað var á Álftanes í bönkum og sjóðum

Kvöld á Álftanesi Um 2.500 manns búa á Álftanesi og deila þar með sér 7,4 milljarða króna skuldabyrði. Sé skuldunum deilt á þá 1.234 Álftnesinga sem kusu í síðustu bæjarstjórnarkosningum 2006 eru þær um sex milljónir á mann.
Fréttablaðið/Valli
Kvöld á Álftanesi Um 2.500 manns búa á Álftanesi og deila þar með sér 7,4 milljarða króna skuldabyrði. Sé skuldunum deilt á þá 1.234 Álftnesinga sem kusu í síðustu bæjarstjórnarkosningum 2006 eru þær um sex milljónir á mann. Fréttablaðið/Valli

Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins Álftaness eru 495,3 prósent af heildartekjum árið 2009 og 626,2 prósent að frátöldum bókfærðum tekjum vegna sölu byggingarréttar. Þetta kemur fram í skýrslu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

„Sveitarfélagið Álftanes er komið í greiðsluþrot. Það getur ekki staðið við sínar skuldbindingar og hefur verið synjað um frekari lánafyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka sínum,“ segir í helstu niðurstöðum skýrslunnar.

„Beiðni sveitarfélagsins til Lánasjóðs sveitarfélaga um lán vegna lausafjárskorts hefur ekki skilað árangri og tilgreinir lánasjóðurinn að aðkoma sjóðsins að málinu verði í samvinnu við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga,“ er síðan bætt við.

Eftirlitsnefndin segir hallann á rekstri sveitarfélagsins árið 2008 hafa verið 832 milljónir króna og að í ár sé gert ráð fyrir að hallinn verði 238,3 milljónir – en 568,6 milljónir ef frá eru taldar bókfærðar tekjur vegna sölu á byggingarrétti.

Skuldir og skuldbindingar Álftaness eru um 7,4 milljarðar króna, að sögn eftirlitsnefndarinnar. Eins og haft var eftir Kristjáni L. Möller sveitarstjórnarráðherra í Fréttablaðinu í gær nema svokallaðar skuldbindingar utan efnahags tæplega þremur milljörðum, að mestu vegna langtímasamninga við Fasteign hf. sem leigir Álftnesingum sundlaug og íþróttamannvirki.

„Sé miðað við sömu skatttekjur sveitarfélagsins árið 2010 og reiknað er með árið 2009 [1.174 milljónum] þurfa rekstrarútgjöld að minnka um tæplega 900 milljónir króna til að eiga fyrir öllum rekstri málaflokka og næsta árs afborgunum,“ segir eftirlitsnefndin sem upplýsir jafnframt að áætluð greiðslubyrði lána árið 2010 sé 626,3 milljónir króna, þar af samtals 430 milljóna kúlulán hjá Arion banka og Lánasjóði sveitarfélaga.

„Þrátt fyrir 832 milljóna króna halla á rekstri sveitarfélagsins árið 2008 hefur sveitarfélagið ekki gripið til viðhlítandi rekstrar­hagræðingaraðgerða til að koma rekstrinum í jafnvægi,“ segir í skýrslunni og útlitið er ekki málað björtum litum:

„Þrátt fyrir að gripið verði nú þegar til verulegrar rekstrarhagræðingar, hækkunar fasteignaskatts og álagi á útsvar verði beitt er vandséð að Sveitarfélagið Álftanes geti orðið sjálfbært nema til komi verulegur utanaðkomandi stuðningur.“

Skýrslan hefur nú verið gerð aðgengileg á heimasíðu Álftaness. Í kvöld klukkan átta munu forystumenn sveitarfélagsins fara yfir stöðuna á íbúafundi í íþróttahúsinu.gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×