Viðskipti innlent

Íslandsbanki tjáir sig ekki um orð Jón Geralds

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Íslandsbanki kveðst bundinn trúnaði um samskipti við Jón Gerald Sullenberger og geti því ekki tjáð sig um þá fullyrðingu Jóns að bankinn hafi hafnað viðskiptum við lágvöruverðsverlsun hans á þeim forsendum að fyrirhuguð álagning væri of lág.

Jón Gerald Sullenberger lýsti því yfir skömmu eftir bankahrunið að hann hygðist opna lágvöruverðsverslun til til höfuðs Bónusfeðgunum Jóhannesi og Jóni Ásgeiri og auka þannig samkeppni á matvörumarkaði á Íslandi. Hann auglýsti eftir starfsfólki fyrir verslunina, Smartkaup, í júlí, og í ágúst vonaðist hann til að verslunin gæti opnað í september.

Enn hefur þó búðin ekki opnað. Í Kastljósi í gærkvöldi fullyrti Jón Gerald að fjölmargir þyrðu ekki að vinna fyrir fyrirtæki hans af ótta við að missa viðskipti við samkeppnisaðila. Í því samhengi nefndi hann framleiðanda kæla, iðnaðarmenn, birgja og svo sagði hann Íslandsbanka hafa hafnað því að taka fyrirtæki sitt í viðskipti.

Jón kvaðst hafa óskað eftir útskýringu og hún hafi hljómað á þá leið að bankinn teldi hann ekki ætla að leggja nóg á vörurnar. Fréttastofa hafði samband við Íslandsbanka í morgun. Þar fengust þær upplýsingar að bankinn væri bundinn trúnaði um samskipti við viðskiptavini og gæti því ekki tjáð sig um samskiptin við Jón Gerald.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×