Skoðun

Aflaráðgjöf sjómanna

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Kristinn H. Gunnarsson skrifar um sjávarútveg

Hafrannsóknastofnun hefur ekki tekist að kveða niður langvarandi óánægju með veiðiráðgjöf stofnunarinnar. Vantraust sjómanna í garð stofnunarinnar hefur farið vaxandi og er svo komið að nær alger trúnaðarbrestur virðist vera milli sjómanna og stofnunarinnar. Að sönnu er vitneskja sjómanna engan veginn tæmandi né óbrigðul, en á hitt er líka að líta að þekking vísindamanna á lífríki hafsins og viðgangi fiskistofna er háð miklum takmörkunum. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hefur reynst víðs fjarri því að vera óskeikul og sjómenn hafa gagnrýnt veigamikla þætti í rannsóknaraðferðum stofnunarinnar. Síðustu ár hafa stjórnvöld fylgt nær eingöngu ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Þekking og álit sjómanna hefur verið fyrir borð borið. Við þetta er ekki gott að búa. Það vantar of mikið af upplýsingum og þekkingu um fiskistofnana til þess að veiðiráðgjöf sé á nægilega traustum grunni.

Landssamband smábátasjómanna hefur samþykkt, að undirlagi Guðmundar Halldórssonar fyrrverandi formanns Eldingar, félagsins í Ísafjarðarsýslum, að koma á ráðgefandi nefnd sjómanna til þess að gefa árlega rökstudda ráðgjöf um heildar­afla á hverju ári. Rætt verður við aðila í sjávarútvegi og stefnt að því að ná samstöðu innan greinarinnar. Ætlunin er að leggja ráðgjöf sjómanna fyrir sjávarútvegsráðherra, þannig að hann hafi tvö álit um veiðar til að styðjast við þegar hann tekur ákvörðun um veiðar úr fiskistofnunum. Annað frá Hafrannsóknastofnun og hitt frá sjómönnum.

Gert er ráð fyrir að ráðgjafarnefnd sjómanna afli gagna um lífríkið í hafinu, veiðar, veiðisvæði og veiðarfæri og aðrar upplýsingar sem sjómenn draga saman við störf sín. Þessi gagnagrunnur mun eflast með árunum og bæta matið á burðarþoli fiskistofnanna. Ég tel engan vafa leika á því að aflaráðgjöf sjómanna með þessum hætti mun verða tekin alvarlega af ráðherra. Óviðunandi er að búa við ástand þar sem þekking sjómanna er virt að litlu. Sjómenn eiga hiklaust að taka málin í sínar hendur og láta til sín taka á þessu sviði.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.



 




Skoðun

Sjá meira


×