Viðskipti innlent

Icesave reikningurinn verður líklega hátt í 300 milljarðar

Ingimar Karl Helgason skrifar
Enda þótt eignir Landsbankans, dugi fyrir öllum innistæðum af Icesave reikningunum, þurfa Íslendingar samt sem áður líklega að borga hátt í þrjú hundruð milljarða króna í vexti.

Fram kom hjá Skilanefnd Landsbankans í gær að líklega myndu eignir Landsbankans duga fyrir níutíu prósentum af Icesave skuldinni. Það þýddi að reikningurinn yrði 75 milljarðar króna, auk vaxta raunar.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, var spurður um þessi mál eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Hann sagði þá að Icesave málin væru að komast á lokastig. Enn væri það þó ekki komið svo langt að fram væru komin drög að nýju frumvarpi um ríkisábyrgð á Icesave. Steingrímur segir að það skipti í sjálfu sér ekki máli, að líklega nái eignir Landsbankans langleiðina upp í höfuðstólinn.

Samkvæmt Icesave samningnum stendur til að eignir Landsbankans gangi upp í Icesave reikningana. Hins vegar á ekki að byrja að borga fyrr en eftir sjö ár. En á meðan safnar höfuðstóllinn vöxtum; það sem ekki verður greitt af þegar eignir seljast. En ef við miðum við um 700 milljarða króna höfuðstól, sem safnar 5,5 prósenta ársvöxtum, má gróflega áætla að Íslenskir skattgreiðendur þurfi samt sem áður þurfa að reiða af hendi hátt í þrjú hundruð milljarða króna þegar upp er staðið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×