Viðskipti innlent

Leigusamningum fjölgaði um 55% milli ára

Í heild hefur leigusamningum fjölgað um 55% í ár m.v. árið í fyrra. Þessi aukning er í takt við þá þróun sem hefur verið á árinu og lýsir hún aukinni sókn í leiguhúsnæði.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að á fyrstu níu mánuðum ársins höfðu alls 8.333 leigusamningum með íbúðarhúsnæði verið þinglýst samanborið við 5.369 á sama tímabili fyrir ári. Þetta jafngildir 55% aukningu á milli ára. Það er Fasteignaskrá Íslands sem tekur saman þessi gögn og birti nýverið.

Alls voru þinglýstir 1.518 leigusamningar nú í septembermánuði sem eru 10,3% fleiri samningar en gerðir voru á sama mánuði í fyrra.

Í ár hafa mun fleiri leigusamningum verið þinglýst með húsnæði en kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu og ljóst er að minna er um kaup og sölu íbúða en á móti hefur leigumarkaðurinn stækkað. Jafnframt hefur verulega dregið úr fjölda skráðra íbúða sem sýnir að minna er um nýbyggingar. Á árunum 2004-2008 voru að meðaltali 3.642 íbúðir skráðar fokheldar og fullbúnar á ári. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs hafa þær einungis verið 458 sem eru um 84% fækkun frá sama tímabili í fyrra.

Í því efnahagsumhverfi sem heimilin búa við um þessar mundir, þar sem atvinnuleysi er vaxandi, kaupmáttur launa að dragast saman og húsnæðisverð að lækka kemur ekki á óvart að fleiri taka þann kost að leigja fremur en að láta fé sitt undir í íbúðarkaup.

Fækkun á skráðum íbúðum, minni velta á fasteignamarkaði og aukin sókn í leiguhúsnæði skýrist því án efa af efnahagsástandinu. Hér má jafnframt taka það með í reikninginn að stór hluti þeirra erlendu aðila sem hingað streymdu í uppsveiflunni hefur horfið af landi brott en þeir voru umfangsmiklir á leigumarkaðnum fyrir bankahrunið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×