Viðskipti innlent

Engar athugasemdir við yfirtöku NBI á Parlogis

Samkeppniseftirlitið telur að ekki sé ástæða til að aðhafast vegna kaupa NBI (Nýja Landsbankans) á Parlogis á grundvelli samkeppnislaga.

Fjallað er um málið á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins. Þar segir að þann 24. september s.l. barst Samkeppniseftirlitinu samrunaskrá vegna kaupa NBI hf. á Parlogis hf í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

Í samrunaskránni kemur fram að kaupin hafi farið fram með þeim hætti að NBI hafi leyst til sín allt hlutafé í Parlogis frá þrotabúi DM ehf. með kaupsamningi, dags. 7. september 2009.

Parlogis starfar á markaði fyrir vörustjórnun og býður viðskiptavinum sínum upp á þjónustu við birgðastýringu, innkaup, innflutning, tollafgreiðslu, geymslu, mótttöku pantana, dreifingu innanlands, reikningagerð og innheimtu. Misjafnt er hversu víðtæka þjónustu viðskiptavinir fyrirtækisins kaupa.

Fyrirtækið hefur sérhæft sig í vörustjórnun fyrir heilbrigðisstofnanir, lyfjafyrirtæki og sérverslanir með heilsutengdar vörur. Í samrunaskrá kemur fram að helsti keppinautur Parlogis sé lyfjadreifingarfyrirtækið Distica hf. sem tengist lyfjainnflutningsfyrirtækinu Vistor hf.

NBI er fyrirtæki sem tók við innlendum inneignum Landsbanka Íslands hf. sem og helstu eignum bankans sem tengdust innlendri starfsemi hans. NBI starfar á fjármálamarkaði og er að fullu í eigu íslenskra stjórnvalda. Samkvæmt upplýsingum frá NBI hefur bankinn ekki annarra hagsmuna að gæta á þeim mörkuðum sem um er að tefla.

Fyrirtækin tvö starfa samkvæmt framansögðu ekki á sama markaði. Samkeppniseftirlitið telur að ekki sé ástæða til að aðhafast frekar vegna samrunans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×