Innlent

Fólk enn þá að skemmta sér - ballgestur sló dyravörð

Varðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að nóttin hafi verið mjög erilsöm og mikið um ölvunarútköll vegna skemmtanahalda í miðborginni. Hann segir útköllin í raun enn vera í gangi, þar sem fólk sé ennþá að skemmta sér.

Grunur er um fimm ölvunarakstra í nótt og einn fíkniefnaakstur. Þá var talsvert um pústra í miðbænum en ekki er ljóst hvort eitthvað af þeim atvikum verði kært. Þá gistu sjö einstaklingar fangageymslur lögerglunnar. Einnig var töluverður erill hjá lögreglunni á Selfossi en það var ball með Sálinni hans Jóns míns í bænum. Einn ballgestur var eitthvað illa fyrirkallaður og sló dyravörð, sem þó slasaðist minniháttar. Ballgesturinn fær hinsvegar að sofa út í fangageymslum lögreglunnar.

Nokkuð rólegt var hjá lögreglunni á Suðurnesjum, samkvæmt upplýsingum þaðan. Lögreglan þurfti að fara útköll vegna hávaða hér og þar í Reykjanesbæ. Mikill erill var hjá lögreglunni á Akranesi og þurfti hún að hafa afskipti af nokkrum vegna almennrar ölvunar. Einn gisti fangageymslur sökum ölvunar.

Mjög snjóþungt er á Húsavík og lögregla þurfti að hafa afskipti af nokkrum sem voru að ganga heim úr bænum og voru ölvaðir og ósjálfbjarga. Slík verkefni voru ófá, að sögn lögreglu, en nóttin var tíðindalítil að öðru leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×