Viðskipti innlent

Baldur undirbjó viðbragðsáætlun gegn falli bankanna

Baldur Guðlaugsson.
Baldur Guðlaugsson.

Fyrrum ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, Baldur Guðlaugsson, undirbjó viðbragðsáætlun gegn falli bankanna sjö mánuðum fyrir hrun. Hann sætir nú rannsókn sérstaks saksóknara vegna gruns um innherjaviðskipti eftir að hafa selt hlutabréf í Landsbankanum mánuði fyrir fall bankanna.

Baldur sat í samráðshópi ásamt ráðuneytisstjórum forsætis- og viðskiptaráðuneytis auk forstjóra Fjármálaeftirlitsins og fulltrúa Seðlabankans í mars 2008. Samráðshópurinn fékk kynningu á hugsanlegu bankahruni sjö mánuðum fyrir fall bankanna. Hópurinn kom meðal annars að undirbúningi lagasetningar sem seinna varð að neyðarlögum.

Skýrsla fjármálakreppusérfræðingsins Andrew Gracie um hugsanlegt hrun í október 2008 - sem varð svo raunin - var kynnt fyrir hópnum í mars sama ár.

Það var morgunblaðið sem greindi frá skýrslunni í maí síðastliðnum en þar kom fram að matið hafi verið gert af Seðlabankanum eftir að hafa fengið einn færasta fjármálakreppusérfræðing heims, Andrew Gracie, til að meta mögulegar leiðir vegna alvarlegrar stöðu bankanna.

Með Gracie voru áætlanir gerðar tækist Glitni ekki að fjármagna sig fyrir stóran gjalddaga í október 2008 og færi því í þrot. Blaðið sagði að ráðuneytisstjórar helstu ráðuneyta hafi jafnframt fengið kynningu á málinu í mars, sjö mánuðum fyrir hrun.

Baldur sat svo fund með viðskipta- og fjármálaráðuneytinu auk Alistair Darlings í september 2008. Þar var bág staða Landsbankans rædd. Stuttu síðar seldi Baldur hlutabréf sín í Landsbankanum en sérstakur saksóknari rannsakar þann gjörning og hvort Baldur hafi haft stöðu innherja vegna starfa sinna hjá ráðuneytinu.

Baldur sendi út yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist hafa fengið bréf frá Fjármálaeftirlinu þar sem honum var tilkynnt um að málið hefði verið látið niður falla og sagðist ekki búast við öðru en að það stæði þar sem enginn hefði haft samband við hann af rannsóknaraðilum.

Samkvæmt heimildum Vísis komu nýjar upplýsingar inn á borð til Fjármálaeftirlitsins sem varð til þess að málið var endurupptekið og svo sent áfram til sérstaks saksóknara.

Baldur starfar núna sem ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytis. Katrín Jakobsdóttir sagði eftir ríkistjórnarfund á sunnudag að staða Baldurs hjá ráðuneytinu yrði skoðuð nú í vikunni. Enginn ákvörðun hefur verið tekinn um málið af hálfu menntamálaráðuneytis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×