Viðskipti innlent

Tveir úr peningastefnunefnd voru andvígir ákvörðun Seðlabankans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands.
Tveir nefndarmenn í peningastefnunefnd af fimm greiddu atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um að minnka aðhald peningastefnunnar um 0,5 prósentur á síðasta fundi peningastefnunefndar. Þeir vildu taka smærri skref, lækka aðhald peningastefnunnar um 0,25 prósentur.

Í fundagerð peningastefnunefndar segir að þeir hafi viljað fara með meiri gát og kusu heldur að lækka innlánsvexti og hámarksvexti innstæðubréfa um 0,25 prósentur í 8,75% og 10,0% hvora fyrir sig.

Þeir lögðu einnig til að vextir á lánum gegn veði yrðu aðeins lækkaðir um 0,5 prósentur í 10,5% og daglánavextir um 0,75 prósentur í 12,25%. Þessir tveir nefndarmenn héldu því fram að enn væru nokkur afar mikilvæg mál óleyst sem gæti leitt til hækkandi áhættuálags á fjárskuldbindingar í krónum.

Lausn Icesave‐deilunnar, sem væri forsenda þess að hægt væri að skýra skuldastöðu hins opinbera, væri enn ekki í höfn og ekki væri ennþá búið að afgreiða fjárlög fyrir árið 2010. Einn nefndarmaður var þar að auki þeirrar skoðunar að verðbólguhorfur til skemmri tíma væru enn nokkuð óvissar. Því væri ekki hægt að horfa algerlega fram hjá hættunni af annarrar umferðar áhrifum á verðbólgu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×