Viðskipti innlent

Íslandsbanki ekki lengi í eigu kröfuhafa Glitnis

Sigríður Mogensen skrifar

Kröfuhafar Glitnis munu ekki eiga Íslandsbanka lengi, en stefnt er að því að selja bankann eftir nokkur ár. Það ræðst á næstu vikum hvort kröfuhafar gamla Kaupþings eignist nýja bankann.

Nú sér loks til lands í endurreisn bankakerfisins, og lítur út fyrir að ríkið muni leggja umtalsvert minna fé til endurreisnar bankanna en til stóð upphaflega.

Skilanefnd Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa, hefur tekið yfir 95% hlut í Íslandsbanka - og mun ríkið halda á 5% hlut í bankanum. Ríkið leggur bankanum til 25 milljarða króna í formi víkjandi láns. Hins vegar fær ríkið til baka þá 37 milljarða sem það hafði lagt í bankann.

Ekki stendur til að kröfuhafar Glitnis eigi Íslandsbanka til framtíðar, enda er ekki um að ræða kaup heldur eru kröfuhafar að taka bankann upp í kröfur sínar á hendur gamla bankanum. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, sagði á blaðamannafundi í gær að nokkrir erlendir aðilar hafi sýnt Íslandsbanka áhuga. Hann vildi þó ekki gefa upp hverjir það væri. Markmiðið sé að selja eignina eftir nokkur ár.

Það ræðst á næstu vikum hvaða leið verður farin með nýja Kaupþing. Skilanefnd bankans fundar með kröfuhöfum í næstu viku. Frestur skilanefndarinnar til að taka ákvörðun, fyrir hönd kröfuhafa, um hvort sambærileg leið verður farin og með Íslandsbanka rennur út 31.október.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×