Viðskipti innlent

Eignir BG Holding duga fyrir um 10% af heildarkröfum í þrotabú Baugs

Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs.
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs.
Eignir BG Holding, dótturfélags Baugs á Bretlandi, duga fyrir rétt tæplega 10 prósent af heildarkröfum í þrotabú félagsins, samkvæmt verðmati PricewaterhouseCoopers á eignum BG Holding.

Verðmatið var unnið fyrir skilanefnd Landsbankans snemma á þessu ári. Verðmæti helstu eigna BG Holding er samkvæmt skýrslunni 31,5 milljarðar króna en allar helstu eignir Baugs eru skráðar hjá dótturfélaginu.

Eins og Vísir greindi frá í gær nemur heildarfjárhæð allra krafna í þrotabú Baugs rúmlega 316,6 milljörðum króna. Af þessari upphæð, nema veðkröfur tæplega 123,9 milljörðum króna.

Eignir BG Holding koma til með að ganga upp í veðkröfurnar en helstu eignir BG Holding eru Iceland Food, Hamleys, House of Fraser og Goldsmiths. Samkvæmt heimildum fréttastofu á Gamli Landsbankinn fyrsta veðrétt í öllum þessum eignum. Aðrir kröfuhafar eru aftar í veðröðinni.

Skilanefnd Landsbankans gekk að veðum BG Holding í byrjun febrúar á þessu ári og hefur félagið verið í greiðslustöðvun síðan þá.

Þann 8. febrúar síðastliðinn hafði breska dagblaðið Guardian upp úr skýrslu PricewaterhouseCoopers, sem unnin var fyrir skilanefnd Landsbankans, að 150 milljónir punda fengjust fyrir eignir Baugs hefðu þær verið seldar á þeim tíma. Í dag jafngildir það um 31,5 milljörðum króna.

Miðað við það verðmat duga eignir BG Holding fyrir rétt tæplega 10 prósent af heildarkröfum í þrotabú Baugs.

Samkvæmt heimildum fréttastofu á ekki að selja ofangreindar eignir í því árferði sem nú ríkir á fjármálamörkuðum. Þeim verður því ekki ráðstafað úr þrotabúi Landsbankans fyrr en að nokkrum árum liðnum. Nýtt verðmat hefur ekki verið gert á þessum eignum.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×