Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Ráðgjöfin í kvótanum ræður úthlutun

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur valið að fara í nær öllu sem máli skiptir eftir ráðgjöf Hafrannsóknar við úthlutun á kvóta fyrir næsta fiskveiðiár. Ráðherrann hefur þó fyrst í samráði við Alþjóða hafrannsóknarráðið ákveðið að leyfilegur hámarksafli af þorski miðist við 20% úr viðmiðunarstofni. Eitt sinn var nokkur sátt um að hafa hlutfallið nokkrum prósentum hærra, þó ekki yfir 25%.

Hvað ráðgjöf Hafrannsóknar varðar er hún ekki óskeikul eins og raunar þorskkvótinn nú sýnir. Ráðgjöfin núna er hin sama og kvótinn eða 150.000 tonn. Hafrannsókn hafði þó sitthvað að segja s.l. vetur þegar Einar Kr. Guðfinnsson hækkaði þorskkvótann úr 130.000 tonna ákvörðun sinni upp í 162.500 tonn. Virðist þetta hafa verið að mestu rétt ákvörðun hjá ráðherranum að mati Hafrannsóknar.

Raunar útilokar Jón Bjarnason ekki að ákvörðun hans um þorskinn muni breytast á komandi fiskveiðaári..."svo framarlega sem fiskifræðilegar forsendur liggi að baki..."eins og ráðherrann orðar það. Ef rétt er munað voru „fiskifræðilegar forsendur" Einars Kr. Guðfinnssonar fyrir sinni aukningu að mestu upplýsingar frá sjómönnum um að allt væri fullt af þorski á miðunum.

Í þessu sambandi er rétt að benda á strandveiðarnar sem nú eru í gangi. Þær eru ekki inni í kvótanum sem stendur. Hlut þeirra á að meta í haust og má reikna með að þessi munur á árunum upp á 12.500 tonn verði notaður til að jafna dæmið út í stað þess að strandveiðarnar dragi úr hlut annarra í 150.000 tonna pottinum.

Aðrar ákvarðanir Jóns Bjarnasonar eru skynsamlegar eins og hvað varðar ýsuna enda vitað að sóknin í þá tegund hefur verið nokkuð úr hófi en í takt við samdráttinn í þorskinum og góða stofnstærð undanfarin ár. Ýsukvótinn er lækkaður um 30.000 tonn niður í 63.000 tonn. Ráðgjöfin var ekki langt frá þessu eða í 57.000 tonnum.

Hinsvegar er ástæða til að hafa áhyggjur af 12.000 tonna kvóta á grálúðu. Þetta er hlutfallslega lengst frá ráðgjöf Hafrannsóknar sem vildi 7.000 tonna kvóta. Grálúðustofninn er að hruni kominn og spurning hvort þetta mikill kvóti ríði honum að fullu, það er ef hann verður veiddur. Málið virðist snúast um einhvern meting við Grænlendinga um hver eigi að eiga hvað í leifunum af grálúðustofninum.

Jákvæðustu fréttirnar eru að Jón Bjarnason hefur ákveðið að leysa skötuselsvanda grásleppukarla fyrir vestan og norðan land. Skötuselur veiðist nú langt frá upphaflegum miðum sínum og það hefur skapað grásleppukörlum utan Suðurlands mikinn vanda. Þeir fá skötuselinn sem meðafla í net sín en geta ekki keypt kvóta á móti svo þeir geti komið með skötuselinn í land.

Skötuselskvótinn er 3.000 tonn á þessu fiskveiðaári en verður 2.500 tonn á því næsta samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknar. Muninn þar á milli eða 500 tonn munu grásleppukarlarnir fá til þess að geta stundað veiðar sínar án áhyggna af þessari fisktegund.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×